Bráðabirgðaútgáfa.

148. löggjafarþing — 80. fundur,  17. júlí 2018.

verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins.

675. mál
[13:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég lýsi yfir stuðningi við þá tillögu sem hér hefur verið mælt fyrir af hálfu formanna stjórnmálaflokkanna. Ég held að það sé vel við hæfi að við minnumst 100 ára afmælis fullveldis landsins með verkefnum af þessu tagi. Verkefnin, hvort um sig, eru mikilvæg og verðug en mest er þó um vert að Alþingi minnist þessara tímamóta í sögu þjóðarinnar með táknrænum hætti, undirstriki mikilvægi fullveldisins fyrir okkur öll og standi vörð um þau grundvallargildi sem fullveldi okkar var reist á.

Verkefnin sem um er að ræða hafa hvort með sínum hætti skírskotun til fullveldisins. Annars vegar er það forsenda þess að við getum verið þjóð meðal þjóða að menning okkar blómstri. Hvernig er betur að því staðið en einmitt með því að efla hana hjá yngstu kynslóðunum, styrkja verkefni sem gera það að verkum að ungt fólk fái að blómstra á menningarsviðinu, fái að kynnast menningarlífinu og spreyta sig á því sviði?

Hins vegar er um að ræða mikilvægt verkefni sem tengist rannsóknum á auðlindum sjávar, sem, eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi í framsöguræðu sinni, hefur verið forsenda þess að við höfum á þessum 100 árum náð að byggja hér upp velmegunarríki. Nýting auðlinda sjávar hefur verið gríðarlega mikilvægur þáttur í því að við höfum getað staðið sjálf og byggt upp það samfélag sem við búum við.

Hér er um að ræða verðug og mikilvæg verkefni, en eins og ég sagði í upphafi er mest um vert að við minnumst þess hvaða gildi það hefur fyrir okkur að vera fullvalda ríki og hversu mikilvæg tímamót það voru 1918 þegar við undirrituðum sambandslagasáttmálann sem var með sínum hætti gríðarlega mikilvægur áfangi, bæði formlega og efnislega, en um leið upphafið að lokakaflanum í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Ég held að við getum sameinast um þessi verkefni. Ég held að þetta séu verkefni sem við eigum að geta staðið saman um. Og á þessum 100 ára tímamótum er einmitt verðugt og mikilvægt að við finnum okkur verkefni sem við getum staðið saman um en geymum ágreiningsmál og átakamál, sem auðvitað eru næg, til annarra tíma.