Bráðabirgðaútgáfa.

148. löggjafarþing — 80. fundur,  17. júlí 2018.

verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins.

675. mál
[13:52]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsóknir er stuðla að sjálfbærni auðlinda hafsins. Tillagan hefur verið undirbúin af fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi. Tillagan er tvíþætt. Annars vegar snýr hún að börnum og ungmennum og hins vegar er hún til eflingar rannsókna í þágu lífríkis og auðlinda í hafinu umhverfis Ísland.

Það er vel við hæfi þar sem framtíðin er barnanna og auðlindir landsins eru þeirra. Raunar er það sjónarmið margra að lífsgæði þjóðar megi meta út frá því hvað þær gera fyrir börnin í samfélaginu. Íslenskt samfélag getur, eins og flest önnur samfélög, gert betur á því sviði og fyrirliggjandi tillaga er mikilvægt skref í þá átt.

Nú þegar 100 ár eru liðin frá því að samningar um fullt sjálfstæði og frelsi í eigin málum eru liðin verður ekki hjá því komist að líta yfir farinn veg og hugsa til þeirra sem stóðu í baráttunni. Ég tek ofan fyrir fólkinu sem barðist fyrir réttindum okkar. Þau virðast sjálfsögð en þau urðu ekki til nema fyrir elju, vinnusemi og þrautseigju þeirra sem ruddu brautina við erfiðar aðstæður. Á þessari öld hafa ýmsar ógnir steðjað að fullveldinu. Þær hafa varðað fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar, verndun náttúrunnar og þátttöku og ábyrgð í alþjóðlegu samstarfi. Fullveldið er ekki sjálfgefið og við þurfum að hlúa vel að því. Við sem þjóð þurfum að vera fær um að skiptast á skoðunum innbyrðis og sýna færni í samskiptum við aðrar þjóðir, deila heiminum með öðrum.

Lítil kosningaþátttaka ungs fólks er áhyggjuefni því að lykillinn að lýðræði í fullvalda ríkjum eru kosningar. Ég fagna því þessari tillögu sem styður lýðræðislega þátttöku barna í samfélaginu með því að stofnaður verður nýr og öflugur barnamenningarsjóður þar sem sérstök áhersla verður lögð á að styrkja verkefni sem efla sköpunarkraft barna og ungmenna og hæfni þeirra til að vera þátttakendur í þeirri þróun sem á sér stað í aðdraganda hinnar svonefndu fjórðu iðnbyltingar.

Hæstv. forseti. Hinn þáttur tillögunnar er ekki síður mikilvægur þar sem fyrirætlun um smíði nýs hafrannsóknaskips styrkir stöðu okkar sem þjóðar sem horft er til þegar kemur að sjálfbærri nýtingu auðlinda sem byggist á rannsóknum og bestu þekkingu hverju sinni. Sjálfbær nýting auðlinda okkar er í raun forsenda efnahagslegs fullveldis. Því hlýtur það alltaf að vera markmið okkar að skila auðlindum okkar áfram til afkomendanna í betra ástandi en þegar við tókum við þeim.

Árið 1918 var sannarlega ekki líkt árinu 2018 hvað varðar veðurfar. Vissulega hefur gæðum náttúrunnar verið misskipt þetta árið og veður farið misjafnlega með landsmenn, líkt og oft gerist í okkar góða landi. Eftir einmunatíð eru heiðarnar og löndin fyrir austan í mun betra ástandi en sumarið 1918 þegar fólk hraktist í burtu vegna erfiðra aðstæðna. Frostaveturinn 1918 beit fast og gekk nærri fólki sem háði harða lífsbaráttu. Nútímakonan ég get engan veginn sett mig í spor Jóhönnu Maríu Jónsdóttur sem var vinnukona á Grímsstöðum þann vetur. Við þekktumst vel, hún fullorðin en ég barn, en lifðum á misjöfnum tímum og ég er þakklát fyrir grunninn sem lagður var í hennar tíð.

Hæstv. forseti. Ég lýsi yfir fullum stuðningi við þessa tillögu. Hún er gott sameiginlegt verkefni og innlegg í framtíðina.