Bráðabirgðaútgáfa.

148. löggjafarþing — 80. fundur,  17. júlí 2018.

verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins.

675. mál
[13:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Núverandi aðalnámskrá grunnskóla byggist á sex grunnþáttum: læsi, sköpun, jafnrétti, sjálfbærni, heilbrigði og velferð og að lokum lýðræði. Af hverju þessir sex grunnþættir en ekki aðrir? Í formála aðalnámskrár er þessu svarað á einfaldan hátt, með leyfi forseta:

„Miklu skiptir að rækta með markvissum hætti þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir getu einstaklinga í framtíðinni til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Þessum grunnþáttum er m.a. ætlað að bæta úr því. Mennta þarf hinn almenna borgara nægilega vel til þess að hann geti veitt valdhöfum eðlilegt aðhald, hvort sem þeir eru í fjármálalífinu, stjórnmálum, fjölmiðlum eða á öðrum sviðum.“

Einnig segir:

„Gert er ráð fyrir því að börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði.“

Aðalnámskrá er afurð faglegrar vinnu sem er ætlað að framfylgja vilja Alþingis.

Í lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, er markmið grunnskóla skilgreint í 2. gr.:

„Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun.“

Í þeirri tillögu sem hér er fjallað um er sérstök áhersla á lýðræði í orðunum:

„Jafnframt verði lögð áhersla á verkefni sem efli samfélagsvitund og stuðli að lýðræðislegri þátttöku barna í samfélaginu og verkefni er stuðli að áframhaldandi innleiðingu barnasáttmálans …“

Í barnasáttmálanum segir:

„Aðildarríki skulu tryggja barni að sem getur myndað sér eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varðar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.“

Það er góð hugmynd að styrkja barnamenningarsjóð til þessara lýðræðiseflandi verkefna en lög um grunnskóla og aðalnámskrá eru ekki einu ástæðurnar fyrir því að það er góð hugmynd að efla lýðræðið.

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt þjóðfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman eigum við og berum ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi, náttúru, sögu, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti og lýðræði að hornsteinum.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Með þessa hugsjón að leiðarljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“

Svo segir í aðfaraorðum frumvarps til nýrra stjórnarskipunarlaga frá árinu 2011. Vonandi leiða þau verkefni, sem fá styrk vegna þessarar tillögu, til öflugra lýðræðis, lýðræðis sem kann á jafnt vægi atkvæða, hlutfallslega skiptingu þingsæta, þjóðaratkvæðagreiðslur; lýðræði sem kann að hlusta á og treysta unga fólkinu fyrir sínu eigin atkvæði. Atkvæði er skoðun sem verður að taka tillit til, óháð aldri þess sem kýs. Með þessari tillögu verður í framtíðinni vonandi einnig tekið réttmætt tillit til atkvæða óháð staðsetningu, hlutfallslegri samsetningu og tilefni.