Bráðabirgðaútgáfa.

148. löggjafarþing — 80. fundur,  17. júlí 2018.

verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins.

675. mál
[14:00]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Við minnumst þess nú að 100 ár eru frá því að sambandslagasáttmálinn var undirritaður í Alþingishúsinu 18. júlí 1918. Með honum varð Ísland fullvalda og sjálfstætt ríki í konungssambandi við Danmörku sem tók að sér um skeið að sinna afmörkuðum málefnum fyrir landsins hönd, einkum á sviði utanríkismála og landhelgisgæslu. Æðsta dómsvald fluttist í landið með stofnun Hæstaréttar 1920, landhelgisgæsla upphófst sama ár með kaupum á varðskipinu Þór af hálfu Björgunarfélags Vestmannaeyja en öll önnur skip sem áður höfðu gætt landhelginnar og sinnt björgunarstörfum voru dönsk.

Þær ákvarðanir sem Alþingi er í þann mund að taka, og ég lýsi fullum stuðningi við, til að minnast hinna merku tímamóta í sögu þjóðarinnar sýnast mjög við hæfi. Vænta má góðs af Barnamenningarsjóði enda eru börnin framtíð þjóðarinnar; af hafrannsóknaskipi enda liggja til grundvallar sjávarútvegi landsmanna lög frá 1948 um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, auk útgáfu bókverka sem fallin eru til að tengja þjóðina betur við menningu sína og tungu.

Herra forseti. Ég óska íslenskri þjóð til hamingju með merkan áfanga í sögu sinni, 100 ára afmæli fullvalda og sjálfstæðs Íslands. Á herðum okkar hvílir sú skylda að standa vörð um fullveldi og sjálfstæði landsins sem verið hefur þjóðinni aflvaki til margvíslegra dáða. Minnumst forystumanna í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga þar sem hæst ber nafn Jóns Sigurðssonar forseta.