Bráðabirgðaútgáfa.

148. löggjafarþing — 81. fundur,  17. júlí 2018.

samstarfsverkefni Alþingis og Hins íslenska bókmenntafélags í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands.

676. mál
[15:06]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Allsherjar- og menntamálanefnd hefur fjallað um þau mál sem hér eru á dagskrá og að henni snúa. Hvað varðar mál nr. 676, samstarfsverkefni Alþingis og Hins íslenska bókmenntafélags, fékk nefndin á sinn fund Jón Sigurðsson frá Hinu íslenska bókmenntafélagi. Samkvæmt tillögunni ályktar Alþingi að ganga til samstarfs við félagið um útgáfu ritverka um Þingvelli í íslenskri myndlist annars vegar og um sögu íslenskra bókmennta frá landnámi til 21. aldar hins vegar, Alþingi styðji útgáfuna fjárhagslega með árlegum fjárveitingum þar til verkefnunum sé lokið. Nefndin telur einkar viðeigandi að Þingvöllum og íslenskri bókmenntasögu verði gert hátt undir höfði með þessum hætti, með hátíðarútgáfu ritverka á þessum tímamótum, og lýsir yfir stuðningi við framgang málsins.

Á fundi nefndarinnar, sem var sameiginlegur með atvinnuveganefnd, var jafnframt fjallað um tillögu til þingsályktunar um verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna annars vegar og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins hins vegar.

Allsherjar- og menntamálanefnd beindi sjónum sínum einkum að a-lið tillögunnar, um að stofnaður verði Barnamenningarsjóður Íslands. Á fundinn mætti mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, og gerði grein fyrir málinu. Samkvæmt a-lið tillögunnar ályktar Alþingi að stofnaður verði Barnamenningarsjóður Íslands sem njóti framlaga af fjárlögum næstu fimm árin. Sjóðurinn hafi að markmiði að fjármagna og styrkja verkefni á sviði barnamenningar. Áhersla verði lögð á verkefni sem efli samfélagsvitund og stuðli að lýðræðislegri þátttöku barna í samfélaginu og verkefni er stuðli að áframhaldandi innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna. Annað hvert ár verði efnt til barnaþings sem taki til umfjöllunar málefni tengd börnum og ungmennum og hagsmunum þeirra. Nefndin er sömuleiðis einhuga um þetta mál og telur þarft og brýnt að það nái fram að ganga.