Bráðabirgðaútgáfa.

148. löggjafarþing — 81. fundur,  17. júlí 2018.

samstarfsverkefni Alþingis og Hins íslenska bókmenntafélags í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands.

676. mál
[15:09]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Á sameiginlegum fundi atvinnuveganefndar og allsherjar- og menntamálanefndar var til umfjöllunar sá liður tillögu formanna stjórnmálaflokkanna sem fjallar um verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands og lýtur að smíði nýs hafrannsóknaskips. Á fundinn mættu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson, og Sigurður Guðjónsson frá Hafrannsóknastofnun ásamt Kristjáni Skarphéðinssyni, ráðuneytisstjóra sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, og gerðu þeir grein fyrir málinu.

Með tillögunni er lagt til að hafin verði smíði hafrannsóknaskips með sérstöku viðbótarframlagi á fjárlögum næstu þrjú árin, 2019–2021. Atvinnuveganefnd lýsti stuðningi sínum við tillögurnar og telur málið mjög brýnt og þarft og lagði sérstaka áherslu á þörf á nýju hafrannsóknaskipi í umsögn sinni í vor um fjármálaáætlun.

Miklar breytingar hafa orðið á umhverfi sjávar. Loftslag er að hlýna og sjávarstraumar og vistkerfi hafsins eru að breytast. Það hefur m.a. haft í för með sér breytingar á þeim fiskstofnum sem veiðast í kringum Ísland en miklar áskoranir eru fólgnar í vöktun umhverfisþátta vistkerfa og breytinga í afkomu einstakra stofna. Mengun sjávar, m.a. af plasti, er alvarlegur vandi sem þjóðir heims glíma við og brýnt er að taka á. Því hefur verið spáð að árið 2050 verði meira af plasti en fiski í sjónum. Því er þörf á auknum rannsóknum hvað þetta varðar ásamt því að mæta aukinni eftirspurn eftir enn frekari nýtingu hafsins og þess fjölbreytta lífríkis sem fyrirfinnst þar. Ljóst er að nýtt hafrannsóknaskip mun styrkja þessar rannsóknaráherslur auk þess sem kominn er tími á endurnýjun rannsóknaskipa Hafrannsóknastofnunar. Eldra skipið, Bjarni Sæmundsson, er tæplega 50 ára gamalt og uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru um rannsóknarskip hvað varðar aðbúnað og tæki.

Í aldanna rás hefur sjávarauðlindin verið undirstaða verðmætasköpunar hér á landi og kölluð gullkista þjóðarinnar. Efnahagsleg uppbygging þjóðfélagsins síðustu 100 árin hefur að stærstum hluta byggst á nýtingu sjávarauðlindanna. Það er því vel við hæfi, í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli þjóðarinnar, að ráðast í byggingu nýs hafrannsóknaskips og treysta enn frekar ábyrga nýtingu hafsins sem við eigum svo mikið undir fyrir framtíð komandi kynslóða. Öflugar hafrannsóknir og vöktun á umhverfi sjávar eru forsenda áframhaldandi sjálfbærrar nýtingar auðlindarinnar. Atvinnuveganefnd er því einhuga um framgang málsins og telur það sérstaklega vel við hæfi að málið verði samþykkt á þessum tímamótum.