148. löggjafarþing — 82. fundur,  18. júlí 2018.

verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins.

675. mál
[14:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Forsetar og kæru landsmenn. Í dag erum við saman komin á Þingvöllum í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins. Þingvellir eru í hugum margra tákn þjóðarinnar sjálfrar og hafa gegnt mjög ólíkum hlutverkum í sögu okkar allt frá landnámi. Hér var Alþingi stofnað og þannig urðu Þingvellir miðstöð valds allt frá landnámstíma.

Í samnefndri sögu Halldórs Laxness hékk Íslandsklukkan sjálf fyrir gafli Lögréttuhússins, engin venjuleg klukka heldur klukka landsins. Þegar sagan hefst var kominn brestur í þessa klukku og elstu menn þóttust muna hljóm hennar skærari. Á sögutíma Íslandsklukkunnar urðu Þingvellir táknmynd hins danska valds á Íslandi, staður þar sem embættismenn konungs felldu dóma og fullnægðu þeim, karlmenn voru hoggnir og konum var drekkt.

Þegar Íslendingar urðu sjálfstæð þjóð endurheimtum við Þingvelli sem okkar minningarstað. Þeir urðu friðsæll fagnaðarstaður fámennrar þjóðar sem þó var sjálfstæð og fullvalda. Hér söfnumst við saman þegar við viljum rifja upp hvað gerir okkur að þjóð, okkur sem hér búum og deilum kjörum.

Það blés ekki byrlega fyrir þjóðinni það ár fyrir 100 árum þegar þjóðin varð fullvalda; Kötlugos, frostaveturinn mikli, spænska veikin, fátækt, kuldi og vosbúð, en þrátt fyrir þetta ástand var þjóðin samstiga um fullveldið. Síðan þá hefur fullveldið reynst þjóðinni aflgjafi í þeirri ótrúlegu sögu framfara og velsældar sem hefur einkennt íslenskt samfélag þessa undangengnu öld.

Hinar erfiðu aðstæður haustið 1918 þegar Ísland varð fullvalda ríki minna okkur á að miklu má áorka þó að ytri aðstæður séu ekki endilega hagfelldar. Saga fullveldisins einkennist af stórhug og framförum og sést í stofnun Háskóla Íslands, byggingu Landspítalans, uppbyggingu menningarstofnana, en ekki síður í baráttu fjöldahreyfinga, verkalýðshreyfingarinnar, kvennahreyfingarinnar sem hafa skilað sigrum sem hafa gjörbreytt samfélagi okkar til góðs. Almannatryggingar, fæðingarorlof og fleiri slíkir sigrar hafa stuðlað að jafnari kjörum fyrir okkur öll. Metnaður, barátta, samstaða þegar á þurfti; allt hefur þetta einkennt sögu fullveldisins og skilað okkur samfélagi sem er gjörólíkt íslensku samfélagi ársins 1918 hvað varðar efnahagslega velsæld og velferð, svo stórfelldar hafa breytingarnar orðið á skömmum tíma.

En hvert stefnum við nú, einni öld síðar? Gildin sem við höfðum að leiðarljósi þá, land, þjóð og tunga eru enn þungvæg þó að samfélagið hafi breyst. Um leið og við tökumst saman á við þá áskorun að efla íslenska tungu í gjörbreyttum heimi fögnum við því að á Íslandi eru núna töluð svo miklu fleiri tungumál en fyrir 100 árum.

Þjóðin er sömuleiðis orðin töluvert fjölbreyttari en árið 1918 því að samfélag okkar er lifandi og það er síbreytilegt. Við eigum að fagna þeirri mikilvægu fjölbreytni sem gerir þjóðina ríkari og tryggja að við öll sem hér búum saman höfum hvert um sig sterka rödd í samfélagi okkar, óháð uppruna, óháð trúarbrögðum. Við eigum aldrei að leyfa hatursorðræðu að verða lögmæt í okkar samfélagi.

Landið hefur einnig tekið miklum breytingum, ekki síst fyrir gjörðir okkar mannanna. Þar stöndum við á tímamótum, þar hvílir sú skylda á okkur að vernda þá ósnortnu náttúru og víðerni sem við eigum og eru orðin sjaldgæf verðmæti í heimi sem er orðinn mun manngerðari en fyrir 100 árum.

Í dag horfum við saman til framtíðar. Við afgreiðum hér tillögur sem annars vegar snúast um auðlindarannsóknir á hafinu sem alla tíð hefur mótað þessa eyþjóð, verið uppspretta lífsbjargar okkar en er að breytast, ekki síst vegna loftslagsbreytinga af manna völdum. Og hins vegar tillögu um barnamenningarsjóð til næstu fimm ára sem á að tryggja þátttöku allra barna í sköpun og menningu. Tillagan endurspeglar skýran vilja Alþingis til að horfa sérstaklega til barna og ungmenna og horfa þannig til framtíðar.

Samfélög eiga ekki síst að vera mæld eftir því hvernig þau koma fram við börn og hvernig þau tryggja að öll börn fái tækifæri til að þroska hæfileika sína þannig að þau nái að dafna og fylgja draumum sínum eftir. Þannig tryggjum við gott samfélag, þannig tryggjum við jafnaðarsamfélag.

Fullveldisafmælið snýst bæði um að minnast þess framsýna fólks sem barðist fyrir fullveldinu á erfiðum tímum en ekki síður um að strengja heit inn í framtíðina. Í fullveldishugtakinu sjálfu felst nefnilega fyrirheit um framtíð, og þau samfélög sem hafa trú á framtíðinni hlúa einkum og sér í lagi að börnum sínum. Ég fagna þeirri trú á framtíðina sem birtist á Alþingi í dag, 18. júlí 2018.