148. löggjafarþing — 82. fundur,  18. júlí 2018.

verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins.

675. mál
[14:22]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegu forsetar. Kæru landsmenn. Ég stend hér með ákveðin hughrif. Ég er auðmjúk. Ég stend hér á einum helgasta stað Íslandssögunnar. Alþingi á Þingvöllum — þetta er ótrúleg tilfinning. Ég er svo þakklát fyrir að við skulum vera hér saman í dag. Ég er svo þakklát fyrir þá gesti sem hafa heimsótt okkur, sem sýna okkur þá virðingu að taka þátt í þessum merka degi, 100 ára fullveldi Íslands. Þrátt fyrir að hafa átt erfitt á árinu 1918, höfðum gengið í gegnum frostavetur, gerðist það undur í júlímánuði, nákvæmlega í kjölfarið á því að við skrifuðum undir sáttmálann, að hér brast á með sól og einstakri veðurblíðu, í júlímánuði árið 1918. Það var ekki bara kalt og alls konar uppákomur og erfiðleikar sem við þurftum að ganga í gegnum það ár, heldur var líka mikil gleði, sól í sinni og fullveldi þjóðarinnar var innsiglað og gengið frá því 1. desember 1918.

Það að verða vitni að því og taka þátt í því með öllum formönnum stjórnmálaflokka, þverpólitísk samstaða var um það, að stofna barnamenningarsjóð fyrir börnin okkar — það er ótrúlegt að fá að vera þátttakandi í slíku. Að vita að með því góða framtaki okkar, þessari gjöf til þjóðarinnar, erum við ekki síst að leggja línurnar að því að mismuna ekki börnum eftir efnahag. Við viljum taka utan um öll börnin okkar, öll íslensk börn eiga að eiga þess kost og möguleika á því að kynnast landinu, geta tekið þátt í menningunni, það er viljinn, það var stóra hjartað sem lá að baki samstöðu okkar um barnamenningarsjóð.

Ekki síst langar mig líka að nefna það mikla framtak sem felst í því að ætla að smíða nýtt hafrannsóknaskip, að við skulum nú í verki virkilega ganga á undan með góðu fordæmi til að leggja okkar af mörkum hvað varðar lífríkið í kringum landið. Við vitum um ógnina sem steðjað hefur að. Við vitum um hlýnun sjávar. Við vitum um mengunina. Við vitum um allt plastið. En það sem við erum að gera núna — við erum virkilega stórhuga og horfum bjartsýn til framtíðar vegna þess að við vitum að saman erum við ósigrandi. Við höldum áfram að standa saman, öll sem eitt. Verum góð hvert við annað. Gefum t.d. okkur alþingismönnum frið til að vinna að góðum málum. Reynum að gleðjast frekar en að sundrast. Það er sú framtíð sem ég vil sjá Íslandi, framtíð okkar allra.

Ég segi: Til hamingju Ísland. Við erum 100 ára fullveldi í dag.