148. löggjafarþing — 82. fundur,  18. júlí 2018.

verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins.

675. mál
[14:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegir forsetar. Góðir landsmenn. Við erum saman komin á fátíðum hátíðarfundi á Þingvöllum, fundi sem er liður í því að fagna einu stærsta afmæli sem þessi þjóð mun halda. Við ættum að gera fullveldisafmælinu hærra undir höfði en raunin hefur verið. Fullveldisdagurinn, 1. desember, hefur enn ekki verið gerður að almennum frídegi, ólíkt því þegar við fögnum t.d. árlegum árstíðaskiptum, komu sumars, oft í kulda og rigningu. Það er ástæða til að við nýtum þetta tilefni til að auka vægi fullveldisafmælisins til framtíðar og minnast reglulega hugarfarsins sem réð för við sjálfstæðisstofnun, styrkja okkur í trúnni, minna á ástæður þess að þjóðin vildi verða sjálfstæð, árangurinn sem af því hlaust og mikilvægi þess að verja fullveldið.

Nú á dögum, þegar margt kann að virðast sjálfsagt eða sjálfgefið, hlutir sem eru það þó alls ekki, er hollt að minnast þeirrar einurðar sem réð för þegar fátæk rúmlega 90.000 manna þjóð á eyju í Norður-Atlantshafi var sannfærð um að Ísland ætti að vera sjálfstætt ríki, fullvalda ríki í heimi sem á þeim tíma var að mestu leyti stjórnað af fáeinum nýlenduveldum. Þá létu menn ekki segja sér að þetta væri ekki hægt, töldu þvert á móti að sjálfstæði Íslands væri löngu tímabært og hefði aldrei átt að hverfa. Íslendingar voru sannfærðir um að þjóðinni myndi vegna betur ef hún réði sínum málum sjálf. Og sú varð sannarlega raunin. Eftir sjálfstæðisstofnun hófst einhver mesta framfarasókn sem nokkur þjóð hefur upplifað.

Í dag stendur til að minnast undirritunar sambandslaganna með því að samþykkja þingmál sem lagt er fram af formönnum allra stjórnmálaflokka á Alþingi. Ég hefði kosið að menn kláruðu tillögu sem samþykkt var í ríkisstjórn í mars 2015 og tengdist m.a. þessum einstaka stað, Þingvöllum, en tillagan sem fyrir liggur er þó hagnýt og löngu tímabært að Íslendingar eignist nýtt hafrannsóknaskip. Þetta er mál sem auðvelt er að sammælast um og vissulega tengist það stöðu okkar sem sjálfstæðrar þjóðar. Það tengist landhelginni, vísindunum og getu okkar til að verja sameiginlega hagsmuni.

Á fullveldistímanum höfum við í þrígang tekist á við ofurefli til að verja þá hagsmuni sem nýju hafrannsóknaskipi er ætlað að treysta til framtíðar. Enginn skyldi gera lítið úr þeim sigrum sem voru unnir í krafti fullveldisins, jafnvel nú á tímum þegar stundum virðist vera í tísku að gera lítið úr afrekum fortíðar.

Minnumst líka þeirrar áherslu sem leiðtogar sjálfstæðisbaráttunnar lögðu á vísindi, rannsóknir og menntun. Leitin að sannleikanum og hinum bestu leiðum fram á við var samofin hugsjóninni um mikilvægi fullveldis. Nú til dags virðast vísindin of oft eiga undir högg að sækja. Stundum virðist sem það sé komin of mikil pólitík í fræðin um leið og það er of lítil pólitík í stjórnmálunum. Það væri hollt fullvalda þjóð að hafa meiri pólitík í stjórnmálunum og minni pólitík og meiri vísindi í menntamálunum. Líklega fer ágætlega á því að á hátíðarfundi sem þessum skuli vera samþykkt tillaga sem allir geta verið sammála um. Við megum þó ekki gleyma því að krafan um fullveldi snerist ekki hvað síst um réttinn til að vera ósammála, hún snerist um lýðræði, það að landsmenn stjórnuðu sér sjálfir, fengju ólíka valkosti til að velja úr og jafnvel takast á um þá á lýðræðislegan hátt.

Ágreiningur gegnir lykilhlutverki í lýðræðisríkjum. Fullveldið snerist um réttinn til að takast á um bestu leiðina, fremur en að fá tilskipanir um hina einu réttu leið frá þeim sem vildu hafa vit fyrir okkur. Í stað Íslandsskrifstofunnar í Kaupmannahöfn, þar sem störfuðu embættismenn sem áttu að vera sérfræðingar í málefnum Íslands og hafa vit fyrir okkur, fékk almenningur á Íslandi að hafa ólíkar skoðanir á því hvað væri rétt hverju sinni.

Fyrir vikið ættum við þó öll að geta verið sammála um eitt, mikilvægi þess að verja fullveldið. En það gerist ekki af sjálfu sér. Það er ekki spurning um málamiðlun og það rúmar ekki þversagnarkennda frasa á borð við að við þurfum að deila fullveldinu. Það að verja fullveldið byggist á því að hafa þá trú sem krafan um fullveldið snerist um og að treysta sér til að fylgja þeirri sannfæringu eftir, ekki hvað síst þegar á reynir.

Látum ekki þá sjálfsögðu og hagnýtu tillögu sem við samþykkjum í dag verða til þess að við lítum fram hjá því sem mestu máli skiptir, því að við virðum fullveldið og verjum það. Nýtum þessi miklu tímamót til að sammælast um að við munum verja fullveldið og stjórnarskrána sem ætlað er að tryggja að aldrei verði gefið eftir.

Sýnum að við höfum skundað á Þingvöll til að treysta vor heit.