148. löggjafarþing — 82. fundur,  18. júlí 2018.

verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins.

675. mál
[14:36]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegir forsetar. Góðir landsmenn. Það er vel við hæfi að Alþingi Íslendinga fjalli á hátíðarfundi hér á Þingvöllum um tillögur til þingsályktunar sem hafa áhrif á framtíðina og eru í þágu ungu kynslóðarinnar og rannsókna sem stuðla að sjálfbærni hafsins. Alþingi ályktar að stofnaður verði Barnamenningarsjóður Íslands sem styrki m.a. lýðræðislega þátttöku barna í samfélaginu. Kosningar eru lykillinn að lýðræði í fullvalda ríkjum og lítil kosningaþátttaka ungs fólks er áhyggjuefni. Í sveitarstjórnarkosningunum árið 2014 var kjörsókn sú versta í sögu lýðveldisins en þar reyndist innan við helmingur ungs fólks hafa mætt á kjörstað. Það er því forgangsmál að styðja og hvetja ungt fólk til að taka upplýstar ákvarðanir og kjósa. Skuggakosningar unga fólksins, sem Landssamband ungmennafélaga og Samband íslenskra framhaldsskólanema stóðu fyrir, eru gott dæmi um verkefni til fyrirmyndar. Það er því ánægjulegt að segja frá því að ráðuneyti samgangna og sveitarstjórna var einn af styrktaraðilum þess við sveitarstjórnarkosningarnar sl. vor. Þátttaka í kosningum er grundvöllur lýðræðis og einn máttarstólpa fullveldis.

Þá ályktar Alþingi einnig hér í dag að hefja undirbúning að smíði nýs hafrannsóknaskips sem standist kröfur til rannsókna í hafi. Með fullkomnum rannsóknartækjum og nýju hafrannsóknaskipi er horft til þess að Ísland geti áfram verið í fremstu röð í stýringu á nytjastofnum og í góðri umgengni við náttúruna. Þjóðinni hefur reynst farsælt að nýting fiskstofna sé byggð á bestu þekkingu hverju sinni. Nýting hafsins í kringum landið stendur undir stórum hluta af afkomu þjóðarinnar, hefur alltaf gert, og lagði grunn á sínum tíma að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar og fullveldinu.

Fyrir rúmum 70 árum mátti lesa í Tímanum — hvar annars staðar? — að Íslendingum væri brýn nauðsyn að eignast hafrannsóknaskip og að hafrannsóknir gætu haft ómetanlega þýðingu fyrir atvinnulíf þjóðarinnar. Á þeim tíma voru firðir landsins svo til órannsakaðir, rannsóknartæki voru af skornum skammti sem og þekking manna á náttúruskilyrðum. Bjarni Sæmundsson náttúrufræðingur vakti máls á því að ef ákveðin veiðistýring væri fyrir hendi yrði aflinn margfalt verðmætari og tók sem dæmi að ef flyðrurnar fengju að lifa tíu árum lengur myndu þær vera 100 sinnum meira virði. Hafrannsóknaskip myndi auka þekkingu á hegðun fiskstofna, en á þeim tíma voru um 90% af útflutningsverðmæti sjávarafurðir. Frá upphafi höfum við haft á að skipa afburðafólki á sviði hafvísinda og fiskifræði. Sjálfbær nýting helstu nytjastofna þykir til fyrirmyndar og stýring veiðanna hefur gert þær arðbærari en víðast hvar annars staðar.

Á sama tíma er mikilvægt að við þekkjum vel hafsbotninn og efstu jarðlög hans í lögsögu Íslands, öflum þekkingar á aðstæðum og lífríki hafsins. Þekking á aðstæðum neðan sjávar, skilningur á hafsbotni og efstu jarðlögum hans er forsenda þess að hægt sé að bregðast við nýjum áskorunum í hafinu. Hafrannsóknir gegna lykilhlutverki fyrir sjálfbæra auðlindanýtingu og þær þarf að efla. Fyrir þremur árum, á 50 ára afmæli Hafrannsóknastofnunar, var ákveðið að kortlagningu hafsbotnsins á allri lögsögunni yrði lokið á næstu árum. Þáverandi sjávarútvegsráðherra, sá sem hér stendur, lagði fram þá tillögu á ríkisstjórnarfundi að fjármagn til verkefnisins yrði tryggt. Upplýsingar um botnsrannsóknir eru verðmæti framtíðarinnar, en rannsóknir vegna breytinga á hafstraumum og súrnun sjávar eru einnig af skornum skammti. Eldra hafrannsóknaskipið okkar, einmitt Bjarni Sæmundsson, hefur reynst okkur vel en er komið til ára sinna. Nýtt hafrannsóknaskip tryggir áframhaldandi rannsóknir, tryggir sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins sem mynda hornstein búsetu og velsældar á Íslandi og undirstöður hins efnahagslega fullveldis.

Höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg? spurði skáldið. Við getum fullyrt að í 100 ára fullveldissögu höfum við sannarlega gert það. Til hamingju, kæru landsmenn, með 100 ára fullveldisdaginn.