148. löggjafarþing — 82. fundur,  18. júlí 2018.

verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins.

675. mál
[14:41]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Virðulegir forsetar. Kæru landsmenn. Fullveldið stendur nærri hjarta okkar allra, ég vil leyfa mér að fullyrða það. Þjóðaratkvæðagreiðslan árið 1918 var merkileg fyrir margra hluta sakir, m.a. fyrir að vera með fyrstu kosningum þjóðarinnar þar sem konur gátu beitt atkvæðisrétti sínum. Ég vitna í orð hinnar miklu baráttukonu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur þegar hún hvatti konur til að nýta kosningarréttinn, með leyfi forseta:

„Þá koma konur í fyrsta sinn fram til að taka beinan þátt í stór-pólitík landsins. Það eru þau mikilvægu réttindi, sem kosningarrétturinn veitir, að þá verðum vér ekki strikaðar út úr þjóðinni. Nú verður engin ákvörðun tekin af alþjóð kjósenda nema vér séum með. Látum nú sjá í haust að Íslendingar viljum vér konur allar líka vera.“

Uppi stóðum við, 1. desember 1918, sem þjóð á meðal þjóða, fullvalda og sterk. Þrátt fyrir smæðina og þrátt fyrir mótlætið. Því að árið 1918 var róstusamt ár í sögu þjóðarinnar, með miklum frostavetri eins og kunnugt er, skertum samgöngum, skorti á innfluttum vörum, Kötlugosi og spænsku veikinni. Til að gera ömurlegar aðstæður enn verri var húsnæðisskortur viðvarandi á þessum tíma en andspænis mótlætinu sýndum við styrk okkar sem þjóð.

Fullveldið sem við börðumst lengi fyrir er verðmætasta sameign þjóðarinnar sem okkur öllum ber að standa vörð um. Það er vert að hafa í huga að baráttan fyrir fullveldi og sjálfstæði Íslands var ekki einangrað tilvik heldur afsprengi evrópskrar frelsishreyfingar. Sjálfstæðisbaráttan snerist ekki um það eitt að taka stjórn landsmála í eigin hendur. Hún var líka ákall um að færa þekkingu og vísindi inn í búskap þjóðarinnar. Hún var herhvöt um frjáls viðskipti og aukið efnahagslegt samstarf við aðrar þjóðir. Þar var líka tækifæri til framfara. Varðstaða um fullveldið er nefnilega ekki varðstaða um stöðnun, þvert á móti.

Fullveldi hverrar þjóðar er lifandi fyrirbrigði. Af því leiðir að í ábyrgðinni á varðstöðu um fullveldi landsins felst að hver kynslóð þarf að gæta þess að koma ár Íslands fyrir borð í samfélagi þjóðanna í samræmi við framrás tímans og allt eftir því hvernig lönd og þjóðir haga og breyta samstarfi sín á milli.

Hvert það skref sem við höfum stigið síðan 1918 til frekari samvinnu og samstarfs við aðrar fullvalda þjóðir hefur bætt efnahag landsins og eflt velferð fólksins þótt í þeim hafi falist að við deildum ákvörðunum um mikilvæg efni með öðrum þjóðum. Ísland er fyrir þær sakir stærra í samfélagi þjóðanna en áður. Þannig höfum við á ábyrgan hátt varðveitt og stutt við fullveldi Íslands.

Tillögurnar sem við formenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi leggjum fram hér í sameiningu í dag eru réttilega til þess fallnar að styðja menningarlegt, vísindalegt og efnahagslegt fullveldi þjóðarinnar. Með stofnun barnamenningarsjóðs er ætlunin að efla lýðræðisvitund barna og ungmenna og hvetja til aukinnar þátttöku þeirra í stefnumótun og ákvörðunartöku. Börnunum okkar, framtíðinni sjálfri, ber að sýna tilhlýðilega virðingu, stuðning og auðvitað ást í öllu okkar kerfi. Þannig verða þau betur í stakk búin að takast á við þær áskoranir sem felast í fullveldinu sjálfu.

Smíði nýs hafrannsóknaskips er ekki síður mikilvæg. Við þurfum að stuðla að því með öllum ráðum að nýting hafsins sé sjálfbær og byggð á bestu fáanlegri þekkingu. Þannig styrkjum við fullveldið því að hagsmunir Íslands hafa verið, eru og verða áfram nátengdir hafinu.

Við Íslendingar, líkt og allur heimurinn, þurfum að skilja betur vistkerfið í hafinu. Við þurfum að efla vernd og stýra nýtingu með markvissum hætti. Þar höfum við Íslendingar verið í forystu og þar ætlum við okkur að vera áfram.

Með þverpólitískum tillögum sem þessum, unnum í sátt þvert á flokka, styrkjum við fullveldið. Það er þakkarvert og það er táknrænt. Við eigum að halda áfram. Við eigum að sækja fram og tryggja að rödd okkar verði áfram sterk í samstarfi þjóða. Líkt og það var gæfa okkar Íslendinga að eiga forvígismenn í sjálfstæðisbaráttunni sem skildu mikilvægi þess að Ísland yrði ekki utan gátta heldur þátttakandi í þeim straumhvörfum sem þá voru að gerjast í Evrópu er brýnna en fyrr, þrátt fyrir það, að við höldum vöku okkar í dag.

Þess vegna þurfum við að hafna einangrunarhyggju, tollmúrum, haftastefnu og rasisma. Við verðum að vera óhrædd að tala áfram fyrir lýðræði, fyrir fjölbreytni, fyrir jafnrétti og fyrir frelsi. Þannig nærum við fullveldi okkar og styrkjum grundvöll þess, landi og þjóð til heilla. Til hamingju með daginn.