149. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2018.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[19:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Góðir landsmenn. Þegar Íslendingar þurfa að segja eitthvað en hafa ekki frá neinu að segja er venjan sú að tala um veðrið. Sú hefð birtist nú í stefnuræðu forsætisráðherra. Ríkisstjórnin er kerfisstjórn. Hún hefur enga pólitíska sýn og við vitum hvers vegna. Við vitum öll til hvers þessi ríkisstjórn var mynduð, eingöngu til að skipta á milli sín ráðherrastólum og koma í veg fyrir að samstarfsflokkarnir hrindi kosningaloforðum sínum í framkvæmd.

Þó er rétt að viðurkenna að forsætisráðherra nefndi ýmis göfug markmið í ræðu sinni, talaði í hátíðarræðustíl um fallega hluti sem allir geta verið sammála um. En hvað með aðferðirnar, sýn ríkisstjórnarinnar á hvernig hún ætlar að ná markmiðunum? Það litla sem við heyrðum um það var í anda sýndarpólitíkur og kerfisvæðingar, snerist um að tikka í boxin með áformum um stærra bákn og fleiri boð og bönn.

Forsætisráðherra nefndi svokallaða jafnlaunavottun og rak á eftir fyrirtækjum að gangast undir eftirlitið sem henni fylgir. Það er þó freistandi að kalla það mál stolnar fjaðrir. Ég man ekki betur en að stjórnarandstöðuflokkurinn Viðreisn hafi átt veg og vanda af því. En málið er jafn vitlaust fyrir það. Gölluð og íþyngjandi löggjöf í andstöðu við stjórnarskrá sem ómögulegt er að sjá hvernig eigi að ná tilgangi sínum.

En á sama tíma og forsætisráðherra nefnir Viðreisnarvottun fyrirtækja sem dæmi um árangur ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum stendur ríkisstjórn hennar í stríði við fjölmennar og mikilvægar kvennastéttir. Þetta er allt á sömu bókina lært, dýrar, flóknar og óraunhæfar kerfislausnir í stað stefnu sem virkar.

Ríkisstjórn sem hefur aðeins starfað í níu mánuði hefur nú með nýju fjárlagafrumvarpi á 100 ára afmæli fullveldisins slegið 100 ára met í útþenslu báknsins. Verst er að útgjaldaaukningin í fyrra og 55 milljarða viðbót nú rennur ekki í að bæta kerfið, að mestu leyti fer hún í að fóðra gölluð kerfi og auka á vandann. Þannig fer meiri hluti aukningar til heilbrigðismála í að festa í sessi mistökin við Hringbraut, ákvörðun sem á eftir að reynast samfélaginu gífurlega dýr.

En þótt stjórnin hafi verið mynduð sem hræðslubandalag til að stoppa af stefnumál samstarfsflokkanna virðast ráðherrar Vinstri grænna ekki hafa fengið minnisblaðið eða vera alveg sama um það. Þeir fara sínu fram. Á sama tíma og læknaritið The Lancet útnefndi íslenska heilbrigðisþjónustu þá bestu í heimi er heilbrigðisráðherra í óðaönn að skipta kerfinu út fyrir marxísku leiðina í heilbrigðismálum. Frjáls félagasamtök, sérfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk sem unnið hefur ómetanlegt starf áratugum saman upplifir sig nú í skotlínunni. Allt skal sett beint undir ríkið og ríkið skal starfa við Hringbraut í Reykjavík. Það er kaldhæðni örlaganna að innleiðing þessa nýsósíalíska kerfis skuli eiga sér stað undir verndarvæng Sjálfstæðisflokksins.

En afleiðingin verður væntanlega tvöfalt heilbrigðiskerfi þar sem þeir sem hafa efni á því greiða sjálfir fyrir þjónustuna, sem sagt niðurbrot á þeirri grundvallarstefnu að ríkið sjái öllum fyrir jafn góðri heilbrigðisþjónustu.

Umhverfisráðherra virðist svo hafa útskýrt fyrir Sjálfstæðismönnum að landið hafi ekkert með meiri orkuframleiðslu að gera. Þrátt fyrir þá vá sem stafar af loftslagsbreytingum skal með öllum ráðum komið í veg fyrir framleiðslu endurnýjanlegrar umhverfisvænnar orku á Íslandi. Áhugamönnum um raunhæfar lausnir í loftslagsmálum bendi ég á að horfa á ræðu mína frá landsþingi Miðflokksins en hún snerist öll um það mál.

Í nýrri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er sumt gott, t.d. stuðningur við rannsóknir og ræktun, en eins og aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar snýst hún aðallega um bönn og árangurslitlar sýndaraðgerðir. Þótt fjölgun rafmagnsbíla sé göfugt og mikilvægt markmið er fráleitt að boða að bensín- og dísilbílar verði bannaðir eftir rúm 11 ár. Ómögulegt er að segja til um hversu hratt tækninni vindur fram og hvenær allir geti reitt sig á rafmagnsbíla, en það verða víst einhverjar undanþágur og eiga þá þeir sem búa á tilteknum stöðum á landsbyggðinni ef til vill að fá sérstakt leyfi til að keyra áfram á hefðbundnum bílum.

En hvað ef þeir flytja? Ætli þeir fái að koma til borgarinnar á bensínbílunum sínum eða verða þeir stoppaðir við nýju tollahlið samgönguráðherrans og sagt að hjóla að borgarlínunni?

Talandi um samgöngumálin, fyrir skömmu sá ríkisstjórnin ástæðu til að skilgreina eigin stefnu í samgöngumálum sem hamfarir. Þannig gat hún tekið 4.000 millj. kr. úr sérstökum hamfarasjóði til að laga vegi sem ekki hafði verið gert ráð fyrir á fjárlögum.

Frá samgöngum að ferðaþjónustu; á sama tíma og stjórnvöld leggja stærstu útflutningsgrein landsins lið með því að auglýsa neyðarfundi um stöðu greinarinnar leggja þau fram fjárlög þar sem engu má muna í rekstri greinarinnar án þess að fjárlögin falli um sjálf sig.

Svo er það hvítbókin um fjármálakerfið, nokkurs konar pólitískt ígildi þess að hrinda barninu ofan í brunninn en státa sig svo af því að ætla kannski að byrgja brunninn einhvern tíma seinna. Birting hvítbókarinnar tefst auðvitað en kannski skiptir það ekki öllu máli því að frá því að ríkisstjórnin tók við hefur hún verið að spila frá sér möguleikunum á að lagfæra fjármálakerfið á Íslandi. Þróun þess kerfis er nú að mestu stýrt af vogunarsjóðum í New York og London.

Herra forseti. Sem sérstakur áhugamaður um menningarminjar get ég ekki látið hjá líða að minnast aðeins á Framsóknarflokkinn, flokk sem var stofnaður til að vera róttækt umbótaafl og skilaði ekki alls fyrir löngu gríðarlegum árangri í krafti róttækrar skynsemishyggju, en taldi svo að besta leiðin til að bregðast við versta tapi í 100 ára sögu flokksins væri að gefa eftir öll stefnumál sín fyrir þrjá ráðherrastóla þótt einn eða tveir hefðu dugað.

Það hefur tekið á að fylgjast með því hvernig flokkurinn hefur að undanförnu gefið eftir öll stærstu loforðin sem hann veitti kjósendum sínum og þingmenn jafnvel leitast við að gera lítið úr þeim. Stóra áhersluatriðið um nýjan Landspítala á nýjum stað var gefið eftir áður en stjórnarmyndunarviðræður hófust. Hin einarða afstaða í málefnum fjármálakerfisins og Arion banka breyttist í ræður um að hlutirnir yrðu bara að vera svona.

Í samgöngumálum fór flokkurinn frá því að segja: Enga vegtolla! í að líta á það sem sérstakt áhugamál að finna nýja staði til að rukka vegfarendur um tolla ofan á síhækkandi skatta og gjöld.

Átakanlegust eru þó svikin við landsbyggðina og íslenska matvælaframleiðslu. Þrátt fyrir að hafa haft ýmsar áhyggjur af þessari ríkisstjórn trúði ég því að hún væri skárri kostur en sumir aðrir fyrir bændur og byggðir landsins. Það er öðru nær. Neyðarástandið í landbúnaði er látið afskiptalaust, byggðamál virðast svo gleymd eða a.m.k. óáhugaverð að mati ríkisstjórnarinnar.

Það er lýsandi að ein mesta útgjaldaaukning sem finnst í fjárlagafrumvarpinu skuli vera að framlög til að fjölga pólitískum aðstoðarmönnum ráðherra séu aukin. Þetta er lýsandi vegna þess að við erum með ríkisstjórn sem snýst bara um eitt, hún snýst bara um sjálfa sig.