149. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2018.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:20]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Kæra þjóð. Ég verð að viðurkenna að seinasta þing var mér erfitt. Er það mikið til vegna þeirra væntinga sem ég hafði til starfsins og fólksins hér inni og þeirra vonbrigða sem ég upplifði þegar ég áttaði mig á því að mikilvægum málum yrði fórnað í nafni stöðugleikans, stöðugleika stjórnarsamstarfsins, stöðugleika valdastóla. Stöðugleiki — orð sem ég get ekki betur séð en að sé notað til að merkja óbreytt ástand, stöðnun.

Nýtt frumvarp til fjárlaga bendir til þess að fjármagnið verði aukið í málaflokka sem hafa allt of lengi verið fjársveltir. En þegar við ausum vatni úr sökkvandi báti með skeið er lausnin ekki fólgin í því að útvega fötu heldur að draga bátinn í slipp. Vaxtarhagkerfið hefur skapað tálsýn. Tálsýnin er endalaus auður þegar raunveruleikinn er sá að við höfum safnað risavöxnum skuldum, skuld hvert við annað vegna vaxandi ójafnaðar, samfélagslegri spennu og ósætti og skuld við umhverfið, sem lýsir sér í mengun og loftslagsbreytingum. Skuld sem er svo himinhá að hún verður ekki greidd með kolefnishlutlausu Íslandi eftir 20 ár.

Við þurfum að vera metnaðarfyllri og hugrakkari en svo því að vandamálið er kerfisvilla sem forgangsraðar hagnaði stórfyrirtækja á kostnað umhverfisins og samfélagsins alls. Hagkerfi sem byggir á því að skilgreina manneskjur sem einfalda neytendur hefur skapað samfélagslega sundrung sem lýsir sér í borgaralegu sinnuleysi þar sem allt of margir upplifa mikið og langvarandi tilgangsleysi. Tilgangsleysið leiðir svo af sér krónískt þunglyndi, tilfinningadeyfð og skort á samkennd.

Forseti. Heimspekingurinn Paulo Freire líkir nútímaskólum við afkastadrifinn iðnað sem hefur að markmiði að þjálfa einstaklinga fyrir hlutverk sitt í markaðshagkerfinu frekar en að vera stofnanir hannaðar til að frelsa hugann. Hann ber skóla saman við banka þar sem kennarar leggja þekkingu inn í höfuð nemenda líkt og peningar eru lagðir inn á tóma bankareikninga og verðgildi nemenda felst í að skila sem mestum hagnaði, sem í samlíkingunni er árangur í gegnum stöðluð og mælanleg próf. Læra meira, vinna meira, kaupa meira, flýta sér meira, meira — deyja. Er það furða að einstaklingar sem alast upp í slíku kerfi upplifi tilgangsleysi?

Hæstv. forsætisráðherra telur mikilvægt að við tryggjum að hér verði samheldið, fjölbreytt og kærleiksríkt samfélag þar sem við lifum í sátt við umhverfið og tryggjum sterkan efnahag og jöfnuð. Þetta er falleg sýn en ég sé ekki hvernig hún verður að raunveruleika við núverandi fyrirkomulag, ekki á meðan við búum við efnahagskerfi sem er háð linnulausum vexti hagkerfisins og drifið áfram í mörgum tilfellum af láglaunuðu striti og sívaxandi neyslu almennings.

Kæra þjóð. Tíminn er vanmetin auðlind. Ég las einhvers staðar að samfélag án tíma væri samfélag án sálar. Þetta kristallast í tilraun sem var framkvæmd á áttunda áratugnum til að rannsaka hvaða þættir hefðu áhrif á getu og vilja fólks til að koma ókunnugum til aðstoðar. Guðfræðinemum var skipt upp í tvo hópa og sagt að ganga í skólastofu í annarri byggingu. Öðrum hópnum var sagt að mikið lægi á og þeir þyrftu að flýta sér meðan hinn hópurinn hafði nægan tíma. Á milli bygginganna var slasaður maður í mikilli þörf fyrir aðstoð. Fylgst var með hversu margir komu honum til aðstoðar. Úr hópi þeirra sem þjáðust af tímaskorti stoppaði einn af hverjum tíu til að aðstoða þennan mann á meðan tveir þriðju þeirra sem voru ekki að flýta sér stoppuðu til að hjálpa. Þegar fólk er að flýta sér skortir það getu til að sýna samstöðu, styðja hvert við annað og stuðla að sameiginlegri velferð. Samfélög sem þjást af tímaskorti eru tilfinningalega veikburða og verða auðveldlega hræðsluáróðri að bráð. Fólk sem hefur ekki tíma á það til að draga sig út úr samfélagslegri umræðu og leyfir þar af leiðandi fámennum hópi að yfirtaka hana. Þannig þjappast valdið saman og meiri hlutinn verður þögull. Þannig töpum við lýðræðinu.

Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra tali í ræðu um fjórðu iðnbyltinguna og mikilvægi þess að vera í fararbroddi. En breyttir tímar kalla á nýjar lausnir og nýja hugsun, ekki plástra á úrelt kerfi. Ég fagna því einnig að setja eigi framtíðina í nefnd, en ég sakna þess að farið sé í brýnar aðgerðir núna. Ef ætlunin er að byggja betra samfélag fyrir alla verðum við að starfa með vellíðan, jafnvægi og hagsæld frekar en hagvöxt að leiðarljósi. Framtíðin getur ekki snúist um auðsöfnun og síaukna neyslu. Hún þarf að snúast um tilgang og réttláta og sjálfbæra velmegun. Sú framtíðarsýn krefst annars konar hagkerfis sem veitir komandi kynslóðum tilgang og snýr við hættulegu þróun í átt að skammtímasýn og eiginhagsmunagæslu, sem núverandi kerfi hvetur til.

Hæstv. forsætisráðherra segir í ræðu sinni að máli skipti að við Íslendingar verðum gerendur, ekki þiggjendur. Því er ég sammála, það skiptir í raun öllu máli. Grundvöllurinn að lýðræðislegu samfélagi er að almenningur sé gerendur, þátttakendur í samfélaginu. Það er markmið sem við ættum öll að stefna að. Það er líka ástæðan fyrir því að Píratar berjast fyrir styttingu vinnuvikunnar, afnámi ósanngjarnra skerðinga og félagslegu réttlæti, því að til að vera þátttakendur þarf fólk að hafa tækifæri og tíma. Tækifæri til þátttöku verða ekki raunveruleg fyrr en grunnþörfum fólks er mætt og þær tryggðar. Á meðan fjöldi fólks þarf daglega að hafa áhyggjur af því að fæða, klæða og hýsa sig og sína nánustu hefur fólk mjög takmarkaða getu til að taka þátt í samfélaginu.

Forseti. Ég legg til að við förum að skoða fjárlög heildrænt og komum okkur í skilning um að viss útgjöld eru í raun fjárfesting. Eins er niðurskurður oft hreinn kostnaður. Sparnaður í félagsmálum og umhverfismálum felur í sér aukinn heilbrigðiskostnað og niðurskurður í menntamálum leiðir af sér aukna glæpi og misnotkun vímuefna á meðan fjármagnið sem við nýtum til að stuðla að heilbrigðara samfélagi með betri skólum, bættri heilsu, félagslegri samheldni og dafnandi vistkerfi er fjárfesting í hamingjusamara samfélagi sem skilar sér margfalt til baka.

Kæru landsmenn. Við þingsetningu spurði forseti Íslands hvað væri dýrmætara en heilsa og hamingja. Svarið er einfalt: Ekkert. Ekkert er dýrmætara. Því legg ég til að við byggjum samfélag og atvinnulíf sem er sniðið að þörfum alls fólks í landinu en ekki einungis að þörfum fyrirtækja. Ég legg til að við nýtum hugvit okkar, þekkingu og samtakamátt í að vera brautryðjandi í nýrri samfélagshugsun með hagsæld, velmegun og jafnvægi að markmiði. Ég legg til að við sættum okkur ekki við þá hugmynd að það sé eðlilegur og óhjákvæmilegur þáttur lífsins að sumum vegni vel og öðrum ekki og þannig sé það bara. Við erum fámenn þjóð, í raun bara ein stór fjölskylda. Við getum gert betur.