149. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2018.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:28]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Samfélagið er á fleygiferð. Og þannig viljum við líka hafa það. Án breytinga verður stöðnun og engin framþróun. Tækni- og upplýsingabyltingin á eftir að breyta því hvernig við lifum, er að því. Hún á eftir að breyta högum, störfum okkar og menntun. Störfin munu breytast og færast til óháð landamærum. Miklu skiptir að samfélagið sé undir það búið að taka á móti tækifærum framtíðarinnar. En þar vega þættir eins og menntun og nýsköpun þungt svo stöðugt megi auka verðmætasköpun og bæta lífskjör. Markmiðið er skýrt hjá ríkisstjórninni; að koma Íslandi í fremstu röð og efla samkeppnishæfni á sem flestum sviðum. Ríkisstjórnin leggur áherslu á fjölbreytt atvinnulíf til að styrkja gjaldeyrisöflun, draga úr sveiflum og tryggja fyrirsjáanleika í afkomu heimila og fyrirtækja.

Framsækin ferðaþjónusta, traustur sjávarútvegur og íslenskt hugvit eru þar mikilvægir drifkraftar tækifæra í komandi tíð. Fordæmalaus vöxtur hefur verið í flugsamgöngum en framlag þeirrar atvinnugreinar til vergrar landsframleiðslu skiptir orðið miklu sem lifibrauð margra og eru margfeldisáhrifin umtalsverð. Nú er farin af stað vinna við að móta fyrstu flugstefnu á Íslandi sem taka mun á öllum þáttum er varða flugstarfsemi hér á landi.

Kæru landsmenn. Þrátt fyrir góðæri og mikinn uppgang eru ákveðnir hópar í samfélaginu sem ekki njóta ávaxta þess til fulls. Við eigum ekki að sætta okkur við það. Hér á landi eiga að vera jöfn tækifæri fyrir alla þannig að allir njóti aukins kaupmáttar og verðmætasköpunar. Í nýútkominni skýrslu varar Gylfi Zoëga við því að mikið launaskrið geti gert ferðaþjónustuna ósamkeppnishæfa þegar til lengri tíma er litið sem leiði síðan til verri lífskjara. Orðrétt segir:

„Verði það að veruleika mætti segja að Íslendingar hefðu farið eins illa að ráði sínu og þegar þeir ofnýttu fiskistofnana á liðnum áratugum. Í hagsögunni yrði ferðaþjónustan þá einungis enn eitt „síldarævintýrið“.“

Jöfn tækifæri fyrir alla krefjast samvinnu og heiðarlegs samtals þar sem sameiginlegar lausnir eru fundnar svo verðmætasköpunin skiptist jafnar sem stuðlar jafnframt að pólitískum stöðugleika sem kjósendur báðu um fyrir ári síðan. Stefna í húsnæðismálum, kjararáð, launaþróun, atvinnuleysistryggingar, stefna í menntamálum, samspil launa, bóta og skatta og ráðstöfunartekna eru áherslur sem hafa verið á dagskrá ríkisstjórnar, aðila vinnumarkaðarins og forsvarsmanna Sambands íslenskra sveitarfélaga síðastliðna níu mánuði eða allt frá því að ríkisstjórnin var mynduð. Viðræðurnar hafa m.a. skilað því að kjararáð var lagt niður og atvinnuleysisbætur og Ábyrgðasjóður launa hafa hækkað. Slíkir fundir eru mikilvægt veganesti til að hlusta eftir áherslum verkalýðshreyfingarinnar og í því samtali er einnig mikilvægt að huga sérstaklega að lægri tekjuhópum. Að því vinnur ríkisstjórnin.

Til marks um það er boðuð veruleg hækkun á barnabótum og hækkun á persónuafslætti í fjárlagafrumvarpi sem kemur einmitt lægri tekjuhópunum vel. Húsnæðismál eru eitt af stóru málunum. Fasteignaverð er hátt, allt of hátt fyrir suma, sem skýrist einna helst af því að það er allt of lítið framboð húsnæðis fyrir tekjuminni hópa. Afleiðingar þess smitast út til allra heimila í landinu í formi hærri húsnæðiskostnaðar vegna vísitölutengingar. Félagsmálaráðherra hefur talað skýrt um að bregðast verði við húsnæðisvandanum í samráði við sveitarfélög landsins.

Þá er það áhyggjuefni að vaxtamunur í íslenskum bönkum sé fyrir utan eðlileg mörk samanborið við Norðurlöndin.

Virðulegi forseti. Verkefnin eru mörg sem setið hafa á hakanum síðustu ár. Ríkisstjórnin styrkir mennta-, samgöngu-, velferðar- og heilbrigðismál. Samkeppnishæfni þjóðar byggir á því að þessir grunnþættir séu skilvirkir og standist alþjóðlegan samanburð. Í fyrstu fjárlögum þessarar ríkisstjórnar var verulega bætt í og í fjárlagafrumvarpi sem kynnt var í gær má sjá að enn er sótt fram. Góðar samgöngur eru forsenda blómlegs mannlífs í landinu en rík áhersla er á að auka viðhald á vegakerfinu, enda hefur þörfin aldrei verið meiri en nú. Þar er ljóst að mikið verk er óunnið við að byggja upp samgöngukerfið og færa til ásættanlegs horfs. Fjármagn hefur enda verið stóraukið en í ár fara 12 milljarðar til viðhalds og lagfæringa á vegakerfinu samanborið við 5,5 milljarða árið 2016. Og fyrr í sumar var 4 milljörðum — 4.000 milljónum — bætt við gildandi áætlun þessa árs til að verja vegakerfið fyrir frekari skemmdum í kjölfar stóraukins umferðarþunga. Ég hefði haldið að allir hér inni gætu sammælst um að segja: Erum við ekki öll sammála um það?

Þá er í fjármálaáætlun gert ráð fyrir sérstöku 5,5 milljarða árlegu framlagi sem bætist við til næstu þriggja ára. Í heildina er gert ráð fyrir að 160 milljörðum verði varið í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu á næstu fimm árum. Samgönguáætlun, sem lögð verður fram í næstu viku, mun taka mið af fjármálaáætlun og verkefnum forgangsraðað út frá umferðaröryggi og þróun undanfarinna ára. Þá er verið að skoða útfærslur á því hvernig hægt er að stórauka þá upphæð sem rynni til nýrra framkvæmda vegakerfisins með sérstöku notendagjaldi af einstökum mannvirkjum svo þau verði að veruleika á sama tíma og við erum að endurskoða gjaldtökugrunninn að tekjum fyrir vegakerfið.

Góðir landsmenn. Aðgerðaáætlun loftslagsmála til næstu 12 ára hefur verið kynnt. Þar verða allir að láta til sín taka og leggja sitt af mörkum. Meðal aðgerða eru orkuskipti, en á næstu árum mun rafbílum fjölga stórkostlega, sem flýtir fyrir orkuskiptum og uppfyllir um leið metnaðarfull loftslagsmarkmið. En það sem er ánægjulegast er að loftslagsmarkmið og efnahagslegir hvatar fara hér saman. Það er ódýrara að reka rafmagnsbíla. Jafnframt er það jákvætt að skipta út aðfluttri, innfluttri orku fyrir hreina innlenda orku. Til þess þarf að tryggja aðgengi að raforku, orku fyrir rafknúin ökutæki, um land allt. Að því vinnur ríkisstjórnin einnig.

Fyrir mér er brýnt að íbúar víðs vegar um landið hafi jöfn tækifæri en margir hverjir hafa þurft að þola mikla óvissu í rekstri sínum. Þannig eru til að mynda mál sauðfjárbænda enn óleyst, en í þeirri vinnu sem nú stendur yfir verður að tryggja að horft sé til sveiflujöfnunarverkfæra til að jafna eftirspurn og framboð. Ávinningurinn er samfélagslegur og liggur í beinum og óbeinum störfum víðs vegar um landið. Þá hefur þróun á eignarhaldi jarða breyst hratt allra síðustu ár sem hefur eðlilega valdið mörgum áhyggjum og miklum. Í því sambandi er ekki óeðlilegt að horfa til hinna Norðurlandanna með tilliti til þess að setja skilyrði fyrir kaupum á bújörðum á Íslandi.

Framþróun á næstu áratugum veltur á því hversu vel okkur tekst til við að auka fjölbreytni í atvinnulífinu. Samfélagið okkar er framsækið. Það starfar á grunni samvinnu og stendur vörð um rétt fólks til þess að lifa í sátt og samlyndi við sjálft sig og umhverfi sitt. Það er mikilvægt fyrir okkur sem hér störfum að leggja okkur fram við að sjá og skynja heildarmyndina til að taka ákvörðun út frá hagsmunum þjóðarinnar bæði til skemmri sem og lengri tíma. Til að finna skynsamlegustu leiðina hefur reynslan kennt mér að oft er mikilvægast að hlusta. — Góðar stundir.