149. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2018.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:10]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Hæstv. forsætisráðherra lýsti áformum ríkisstjórnarinnar í nokkrum stórum málum sem ríkisstjórnin sammæltist um að hrinda í framkvæmd við upphaf ríkisstjórnarsamstarfsins. Málum ríkisstjórnarinnar verður ekki öllum lokið á þessum þingvetri en þeim hefur mörgum þegar verið hrint af stað og stefnir ríkisstjórnin jafnvel að lyktum sumra sinna mála á þessum þingvetri. Öll þessi mál ríkisstjórnarinnar, alveg eins og öll þingmannamál, vænti ég, eru lögð fram af heilum hug og í þeirri viðleitni og trú að þau séu framfaraskref, séu þjóðinni allri til framdráttar þótt einstök mál endurspegli ekki endilega alfarið sjónarmið hvers og eins okkar sem byggjum þetta land.

Hæstv. fjármálaráðherra vék í sinni ræðu að efnahagslegu sjálfstæði okkar þjóðar og lýsti um leið fádæma góðri stöðu í íslensku efnahagslífi. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að alþjóðleg fjármálakreppa lék okkur grátt fyrir tíu árum. Sú sterka staða sem fjármálaráðherra lýsti gerir okkur kleift að hrinda í framkvæmd þeim verkefnum sem ríkisstjórnin hefur sammælst um.

Efnahagslegt sjálfstæði er forsenda framfara en þó hvorki bein ávísun á framfarir né hagsæld. Þar veldur hver á heldur. Grundvallaratriði í þeim efnum er að átta sig á því og sætta sig við þá staðreynd að efnahagslegt sjálfstæði er ekki náttúrulögmál. Efnahagslegu sjálfstæði þarf að viðhalda með ráðdeild og festu gagnvart þeim sem ekki vilja kannast við mikilvægi þessa sjálfstæðis. Það verður ekki staðinn vörður um efnahagslegt sjálfstæði með inngöngu Íslands í Evrópusambandið eins og formaður Samfylkingarinnar boðaði í ræðu sinni aftan úr grárri forneskju.

Hér á Alþingi og utan þess eru oft tímafrekar umræður um verkefni sem kalla á fjárframlög skattgreiðenda. Það er eðlilegt. Því miður eru verkefni hins vegar gjarnan metin að verðleikum eftir fjárheimildum, eins og ekki sé hægt að taka framfaraskref án þess að þess sjái stað í fjárlögum næsta árs svo um muni. Sem betur fer er það ekki svo.

Ég mun á þessum vetri leggja fram frumvarp sem gengið hefur undir vinnuheitinu rafrænar þinglýsingar. Auðvitað koma rafrænar færslur við sögu þinglýsinga nú þegar. Þess vegna segi ég vinnuheiti. Ef frumvarpið væri hins vegar kallað nafni sem lýsti nákvæmlega efni þess hefur mér verið sagt að það myndi ekki fanga athygli annarra en þeirra sem starfa við það forna fag sem þinglýsingar eru. Jafnvel eru einhverjir hér í þessum sal sem hafa sagt mér að þetta mál hljómi jafn spennandi og síðasta mínúta tveggja síðustu landsleikja strákanna okkar. En þetta mál er spennandi, það mun bylta aldagömlum aðferðum í mikilvægri opinberri þjónustu.

Ég nefni þetta mál mitt sem dæmi um áherslu þessarar ríkisstjórnar á að bæta þjónustu við borgarana með því að stytta afgreiðslutíma, auka aðgengi að þjónustunni og lágmarka mistök við veitingu hennar og um leið draga úr kostnaði. Við þekkjum hvílík bylting það var á sínum tíma þegar einstaklingum og fyrirtækjum var gert kleift að skila skattskýrslum á rafrænu formi. Á þessu ári kynnti fjármálaráðherra rafræna álagningarseðla sem hefur veitt skattgreiðendum aukna og skýrari sýn inn í ráðstöfun skattgreiðslna. Í heilbrigðismálum er rafræn þjónusta sívaxandi. Þá hefur ferðamálaráðherra boðað rafrænar lausnir við leyfisveitingar og skráningar í ferðaþjónustu. Við munum í mjög náinni framtíð auka mjög skilvirkni í opinberri þjónustu með rafrænum hætti.

Ég er ekki talsmaður sérstaklega þverpólitískrar samstöðu um nokkurt mál en vænti þess hins vegar að Alþingi fagni tækifærum til að bæta opinbera þjónustu með nútímatækni og ég hlakka til umræðu um þessi mál sem og önnur á þessum þingvetri.