149. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2018.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:21]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Menntun er forsenda framfara, velsældar og samkeppnishæfni hverrar þjóðar. Þessi ríkisstjórn hefur sett menntamál í öndvegi og á komandi vetri munum við vinna ötullega að því að gera gott menntakerfi enn betra. Frá ársbyrjun höfum við séð jákvæða þróun á nokkrum sviðum menntamála. Fyrst ber að nefna að það er mikil sókn í iðn-, verk- og starfsnám og er fjölgunin í sumum greinum upp á 33%. Í annan stað hefur orðið veruleg aukning í fjölda þeirra sem sækja um nám í kennaradeildum háskólanna og að lokum má nefna að dregið hefur úr brotthvarfi nema á framhaldsskólastiginu. Sú þróun er jákvæð og brýnir okkur til enn frekari góðra verka á þessu sviði.

Skýr stefna í menntamálum er hverri þjóð nauðsynleg, stefna sem byggir á því hver staðan er, hvað við ætlum að gera, hvernig við viljum gera það. Eitt stærsta verkefni fram undan er mótun menntastefnu til ársins 2030. Það er virkilega ánægjulegt að finna hversu margir eru tilbúnir til þess að leggja hönd á plóg. Hafin er fundaröð um allt land við að móta menntastefnuna þvert á menn, málefni og flokka. Og er jafnvel hæstv. dómsmálaráðherra með.

Góðir landsmenn. Ef íslenskan hverfur tapast þekking og við hættum að vera þjóð. Þessi orð frú Vigdísar Finnbogadóttur eru sönn og eiga erindi við samfélag okkar. Það er brýnt að við missum ekki sjónar á mikilvægi þess að tala eigið tungumál. Rík skylda hvílir á herðum okkar að rýna þær áskoranir sem mæta tungumálinu hverju sinni og bregðast við þeim með afgerandi hætti.

Í dag var kynnt heildstæð aðgerðaáætlun í fjórum liðum sem miðar að því að efla íslenskt mál til framtíðar. Nálgunin lýtur að bókaútgáfu, fjölmiðlun, stafrænni framtíð og svo aðgerðum í 22 liðum sem miða að því að efla íslenskuna. Strax á upphafsdögum þingsins verður lagt fram stjórnarfrumvarp til laga um stuðning við bókaútgáfu á íslensku. Markmiðin eru skýr. Við ætlum að stuðla að blómlegri bókaútgáfu á íslensku og bættu læsi, ekki síst hjá börnum og ungmennum.

Góðir landsmenn. Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki við miðlun upplýsinga og sem vettvangur umræðu og skoðanaskipta. Þeir spegla sögu okkar og viðhalda íslenskri tungu. Að því sögðu liggur fyrir að rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi er erfitt. Ísland er eina landið á Norðurlöndunum sem ekki styður á nokkurn hátt við einkarekna fjölmiðla. Við ætlum að bæta úr því. Í dag voru kynntar aðgerðir í þá veru. Það er gríðarlega mikilvægt að skapa frjóan jarðveg fyrir fjölbreytta flóru fjölmiðla sem er í stakk búin að búa til og miðla vönduðu fréttaefni á íslensku. Nú er tími aðgerða fyrir okkar mál og við ætlum að styrkja stöðu íslenskunnar til framtíðar.

Góðir landsmenn. Við eigum sem þjóð að sækja fram á öllum sviðum. Markmið okkar á að vera að hér sé framúrskarandi menntakerfi og að allt ungt fólk finni sér nám við hæfi og nái að finna hæfileikum sínum réttan farveg. Ég tel afar brýnt að við náum saman öll um það að móta menntakerfið sem verður framúrskarandi. — Góðar stundir.