149. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2018.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:46]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Það er ánægjulegt að þing sé nú saman komið að hausti, þingmálalisti ríkisstjórnar liggi fyrir, fjárlagafrumvarp hafi verið kynnt og forsætisráðherra flutt stefnuræðu sína. Það skyggir þó nokkuð á að ýmislegt sem fram hefur komið í dag og í gær bendi til þess að ríkisstjórnin hafi sammælst um að gefa okkur meira af því sama, meira af sama meðalinu og við fengum í fyrra.

Í fyrra var okkur tilkynnt að stórátak væri fram undan í samgöngumálum. Áherslan á samgöngumál er orðin svo niðursoðin í ár að hún rúmast í tveimur línum og einu orði í ræðu hæstv. forsætisráðherra.

Hvað fjármögnun samgöngukerfisins varðar virðist fjárlagafrumvarpið gera ráð fyrir því að enn um sinn verði hjakkað í sama farinu og verður að segjast að hlutskipti samgönguráðherra er ekki öfundsvert. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að skera vegagerðarsneiðarnar þunnt. Þetta undirstrikar nauðsyn þess að við nálgumst þessi mál með nýjum hætti. Hugsum út fyrir boxið.

Virðulegur forseti. Hæstv. umhverfisráðherra var spurður í viðtali í fyrradag um hvernig Íslendingar geti mætt orkuþörf sem ný spá Orkustofnunar gerir ráð fyrir til ársins 2050. Spáin gerir ráð fyrir því að orkuþörfin muni vaxa um sem nemur þremur Blönduvirkjunum á tímabilinu án þess að nýir stórnotendur komi til skjalanna.

Svar ráðherrans var skynsamlegt á að hlusta, en hann sagði, með leyfi forseta:

„Ef við skoðum núgildandi áætlun frá 2013 er í svokölluðum orkunýtingarflokki meira heldur en sem nemur raforkuþörf til 2050.“

Þetta var fínt svar, eins langt og það nær, en ef við lítum aðeins inn fyrir leiktjöldin kemur í ljós að verkefni sem eru skilgreind í nýtingarflokki rammaáætlunar eru fjarri því að fá brautargengi. Sem dæmi má nefna svokallaða Hvalárvirkjun sem hefur verið í nýtingarflokki frá fyrstu útgáfu rammaáætlunar og er stærsta deilumálið þessi misserin hvað orkunýtingu varðar. Það er öllum ljóst sem til þekkja að þeir sem eru á móti virkjuninni líta ekki svo á að um hana sé nein sátt. Hún er bara eins og hvert annað orkunýtingarverkefni sem talið er forsvaranlegt að berjast á móti af fullu afli. Ef fram heldur sem horfir er hætt við að allar okkar ágætu rammaáætlanir, sem ætlaðar voru til sátta hvað orkunýtingu varðar, endi í ruslatunnunni. Að því væri mikill skaði.

Virðulegur forseti. Aðför heilbrigðisráðherra að stofnunum sem eru utan kerfisins við Hringbraut er ótrúleg, sérstaklega í ljósi þess að við búum við eina bestu heilbrigðisþjónustu í heimi. Engu skal eirt í viðleitni ráðherra og þá gildir einu hvort um er að ræða SÁÁ, Hugarafl, sérfræðilækna eða hvaðeina annað sem á vegi hennar verður. Í viðleitni sinni til að ná sínu fram eru staðreyndir affærðar og virðist tilgangurinn helga meðalið hjá ráðherra og leikskipulagið „allt er leyfilegt“ er viðhaft.

Til að bíta höfuðið af skömminni eru sjúklingar sendir á einkastofnun í Svíþjóð, oft með íslenskan lækni meðferðis sem framkvæmir aðgerðirnar erlendis, allt til þess að ekki þurfi að bakka með það ofstæki sem Klíníkin í Ármúla mætir hjá heilbrigðisráðherra. Þá skiptir engu þó að lausnin fyrir hinu þjáðu sjúklinga sé þrisvar sinnum dýrari en fengju þeir þjónustu í póstnúmeri 109.

Það undarlega er að allt þetta virðist gerast með samþykki og bakstuðningi Sjálfstæðisflokksins og er það miður. Því ber þó að fagna sérstaklega að í ræðu heilbrigðisráðherra hér fyrr í kvöld hafi hún sagt sem er þó augljóst að í haust verði hafist handa við byggingu nýs Landspítala. Það gefur okkur enn eitt tækifæri til að stoppa þá vitleysu sem reynt hefur verið að keyra hér í gegn því að það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að ríkið er ágætiseigandi að tómum holum á höfuðborgarsvæðinu þar sem framkvæmdir hafa stoppað. Ég skora á þingheim að horfa til þess verkefnis að skoða þetta einu sinni enn með opnum hug svo við þurfum ekki eftir nokkur ár að hugsa: Ó, hvað gerðum við?