149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það færi vel á því ef við værum stödd á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og værum hér að draga saman ályktanir flokksmanna, en við erum það ekki. Við erum á þinginu að ræða fjárlög ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks.

Ef menn vilja ræða við mig um útgjöldin og það hvort báknið er að vaxa segi ég: Það er gríðarlegt fagnaðarefni fyrir okkur Íslendinga að hafa komist úr þeirri stöðu að vera fátækust meðal Evrópuþjóða um aldamótin 1900 og hafa þannig vaxið fiskur um hrygg að geta gert betur nánast á öllum sviðum samfélagsins án þess að það íþyngi okkur hlutfallslega meira en það hefur gert í fortíðinni. Þannig tala allir núna um hinn stórkostlega vöxt ríkisútgjaldanna á sama tíma og útgjöldin sem hlutföll af landsframleiðslu hafa lækkað, eins og sjá má á bls. 94 í fjárlagafrumvarpinu, úr því að vera um 35% af landsframleiðslu niður undir um 30% markið. Þetta er auðvitað stórkostlegur árangur, að við getum lagt meira til heilbrigðiskerfisins og velferðarmála, stutt betur við barnafjölskyldur og tekjulægri, að við skulum geta sett meira í innviði, borað göng í gegnum fjöll, styrkt vegakerfið, keypt nýjan Herjólf, nýjar þyrlur o.s.frv., án þess að það íþyngi okkur hlutfallslega meira. Þetta er stórkostlegur árangur og er til vitnis um það að við erum að nýta efnahagslegan uppgang í landinu til þess að gera betur fyrir alla landsmenn. Um það snúast m.a. þessi fjárlög, um þá réttu forgangsröðun að búa í haginn fyrir framtíðina og fara ekki fram úr sér, skila góðum afgangi á fjárlögum, vera með langtímasýn um það hvernig þessir hlutir þróast.

Og hver hefur síðan óbeina afleiðing þessarar stefnu verið? Hún hefur m.a. verið sú að íslenska ríkið hefur á þeim tíma, sem margir hér inni segja að við séum að eyða allt of miklu — ja, þeir sem meta stöðu ríkissjóðs hafa aldrei metið stöðu ríkissjóðs betri sem hefur m.a. komið fram í bestu lánakjörum sem íslenska ríkið hefur nokkru sinni fengið (Forseti hringir.) á erlendum mörkuðum.