149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Komið er inn á tvo liði. Það er annars vegar þetta með útgjöldin. Það er svo að hv. þingmanni þykir sem ekki sé gert nóg á útgjaldahliðinni. Þetta er sú staða sem ég ræddi í gær og við munum áfram ræða, að sumum hér inni finnst sem við séum að gera of mikið á útgjaldahliðinni og að við spyrjum ekki nægilega að því hvort við náum árangri í samræmi við útgjöld. Ég held að það sé mjög gild spurning. En hér er því hins vegar haldið fram að ekki sé nægilega mikið gert og því síðan auðvitað fylgt eftir með því að við ættum að vera með hærri skatta. Því er ég hreinlega ósammála. Ég held að við höfum fundið gott jafnvægi á milli þess að draga úr álögum á atvinnustarfsemi á þeim tímum þegar samkeppnishæfni landsins hefur hrakað verulega og þess að stilla útgjöldunum í hóf og í samræmi við langtímamarkmið okkar.

Því er haldið fram að sérstakt áherslumál ríkisstjórnarinnar sé að lækka veiðigjöld. Það er alrangt. Það er kominn tími til að menn átti sig á því að veiðigjöldin munu fara upp og þau munu fara niður eftir afkomu greinarinnar. Það er eðli veiðigjaldanna, alveg nákvæmlega eins og skattar á lögaðila munu fara upp og munu fara niður eftir afkomu fyrirtækjanna í landinu.

Síðan er spurt um gengi gjaldmiðilsins. Það hefur eflaust þótt góð aðferðafræði í ráðstjórnarríkjunum og í einhverjum einræðisríkjum að menn settu þjóðhagsspár og ríkisfjármálastefnuna undir sama þak. Við gerum það ekki. Við erum ekki með okkar eigin spár um þróun gengis gjaldmiðilsins heldur byggjum á opinberum tölum og gerum það í opnu, gegnsæju ferli. Þær opinberu spár eru grundvöllur fjárlagafrumvarpsins. Það er auðvitað eina leiðin fyrir okkur til að vinna þetta áfram. Þeir sem telja sig geta spáð fyrir um gengi krónunnar fimm ár fram í tímann eru eflaust í mjög góðum málum almennt séð og að fást við eitthvað annað en að sitja hér. Það sem stendur upp úr er að gjaldmiðillinn hefur stutt við góð lífskjör (Forseti hringir.) sem mælast efst meðal þjóða á flesta mælikvarða í dag. Það er ekkert sjálfstætt markmið að halda stöðugum gjaldmiðli ef stöðugur gjaldmiðill byggir ekki undir góð lífskjör. En við höfum undanfarin misseri fengið hvort tveggja.