149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessa yfirferð.

Aðeins varðandi vaxtabæturnar. Hæstv. ráðherra boðar hækkun vaxtabóta í frumvarpinu. Niðurstaðan er hins vegar sú að hér er í raun ekki um neina hækkun að ræða. Það sést reyndar svart á hvítu í frumvarpinu þar sem vaxtabæturnar verða 3,4 milljarðar en voru 4 milljarðar í fyrra. Hin mikla hækkun á húsnæðisverði undanfarið ár hefur étið upp vaxtabæturnar og er einn helsti skerðingarþáttur vaxtabóta hækkun á verðmæti eignar.

Frá árinu 2010 hafa vaxtabætur lækkað um rúma 8 milljarða kr. og þeim fjölskyldum sem eiga rétt á þeim fækkað um rúm 30.000. Það er því búið að taka vaxtabæturnar af fjölda fólks. Ekki er að finna raunverulegt peningasjóðsstreymi í þessari boðuðu hækkun vaxtabótanna. Á sama tíma fá sífellt færri vaxtabætur vegna íbúðarhúsnæðis. Þá hafa fasteignagjöld sem sveitarfélögin leggja á hækkað um meira en 50% vegna gríðarlegra hækkana á húsnæðisverði.

Niðurstaðan er því þessi: Bótagreiðslur til húseigenda hafa hríðlækkað á sama tíma og skattar á húseigendur hafa hækkað umtalsvert. Það sem skiptir höfuðmáli í þessu eru skerðingarmörkin, þ.e. hvenær vaxtabæturnar byrja að skerðast. Skerðingar- og niðurfellingarmörk vaxtabóta hafa engan veginn fylgt verðlagi. Auk þess hafa hámarksgreiðslur vaxtabóta nánast haldist þær sömu síðan 2011. Skerðingum á niðurfellingarmörkum vaxtabóta verður að breyta.

Það væri ágætt að fá að vita það frá hæstv. ráðherra hvort hann getur upplýst okkur um hvaða hópar í samfélaginu eiga yfir höfuð að fá vaxtabætur.