149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég heyri það að hæstv. fjármálaráðherra les Morgunblaðið. Það er bara ágætt. Hann hafði verulegar áhyggjur af því hér fyrr í vetur, á síðasta þingi, að ég læsi Morgunblaðið. Það er gott að vita að hann gerir það og heldur sig við útúrsnúninga eins og honum er einum lagið.

Árið 2009 fengu 69% einhleypra fasteignaeigenda vaxtabætur. Árið 2017 var þessi tala komin niður í 28%. Ef reglunum verður ekki breytt af einhverju viti er þessi boðaða hækkun á vaxtabótum tilgangslaus. Það má í raun segja, og ég heyrði það á hæstv. ráðherra, að vaxtabótakerfið sé ónýtt. Að bæta peningum inn í ónýtt kerfi er slæm ráðstöfun.

Hæstv. ráðherra svaraði því ekki hvaða þjóðfélagshópar eiga að fá vaxtabætur. Það er rétt að fá það á hreint og hætta svo þessum útúrsnúningum. En honum er velkomið að halda áfram að lesa Morgunblaðið mín vegna.