149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:05]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir yfirferð yfir fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár. Hann fór mikinn um þann mikla árangur sem náðst hefur í ríkisfjármálum, hvernig útgjöld sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hefðu lækkað, sem er vissulega er rétt en hann bar þau saman við þau útgjöld sem voru í miðju hruni þegar við tókum á okkur á þriðja hundrað milljarða í aukaútgjöld. Ég held að það sé ekki sérlega góður viðmiðunarpunktur á mælikvarða.

Það sem er öllu merkilegra er að sama ræða hefur verið flutt áður í þessum sal. Hún var sennilega mjög keimlík fyrir fjárlagaumræðu ársins 2008. Hún var sennilega mjög keimlík þegar flutt var ræða fyrir fjárlagavinnuna árið 2000.

Þetta er íslenska sveiflan. Þetta er sá tímapunktur í hagsveiflunni þar sem ríkissjóður veit varla aura sinna tal. Það streymir inn í ríkissjóð því að allir skattstofnar hans eru í hápunkti. Einkaneysla er í hápunkti. Fjárfesting atvinnulífsins er í hápunkti. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði er í hápunkti og svo mætti áfram telja. Allt eru það þættir sem skila ríkissjóði gríðarlega miklum tekjum. Það er ekki sérstaklega merkilegur árangur í íslensku sveiflunni að skila ríkissjóði með afgangi á þessum tímapunkti. Það er hins vegar alveg sérstaklega merkilegur árangur að ná að eyða öllum þeim peningum.

Það sem ég velti fyrir mér þegar ég hlustaði á ræðu hæstv. fjármálaráðherra var: Hvað er öðruvísi nú? Þetta hefur aldrei farið vel. Mikil útgjaldaþensla á þessum tímapunkti hefur aldrei verið neitt sérstaklega góð hugmynd í íslenskri hagstjórn og það er ástæðan fyrir því að við erum með þennan sveiflukennda gjaldmiðli. Það er ástæðan fyrir því að við erum með gríðarlega háa vexti. Svarið er, hæstv. fjármálaráðherra, ekki að taka til þess að fara að niðurgreiða illa staddar atvinnugreinar, eins og ríkisstjórnin virðist ætla að gera. Svarið er að reyna að bæta rekstrarskilyrði þeirra almennt með bættum vinnubrögðum, með raunverulegum breytingum. Þær er ekki að sjá hér.

Mér þætti áhugavert að heyra (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra útskýra fyrir mér af hverju við ættum að trúa því að þetta verði öðruvísi núna en svo oft áður.