149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:11]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sakna svo sem svarsins við því af hverju við ættum að búast við því að þetta verði öðruvísi núna en svo oft áður. Þetta er íslenska sveiflan. Því miður er æðimargt sem bendir til þess að farið sé að halla undan fæti nú þegar. Það vekur upp þá spurningu þegar útgjöld ríkissjóðs eru þanin til hins ýtrasta á grundvelli tekjustofna í algjöru hámarki. Við vitum alveg hversu hratt þeir gefa eftir jafnvel við hóflega myndaaðlögun í hagkerfinu.

Þegar við horfum á söguna vitum við líka að íslenska sveiflan er u.þ.b. svona: Á 10 ára fresti förum við í gegnum niðurskurð. Á 20 ára fresti er hún hörð. Á 20 ára fresti er hún tiltölulega mjúk. Við fórum fyrir áratug í gegnum mjög harða aðlögun. Það er ekki ástæða að mínu viti til að óttast það aftur núna. En það er full ástæða til að vera á varðbergi gagnvart því sem kalla mætti mjúka aðlögun. Slíkar aðlaganir hafa líka sýnt það í gegnum tíðina að tekjur ríkissjóðs verða fyrir verulegu höggi í slíkri aðlögun, jafnvel í mjúku lendingunni.

Þegar fjármálaráðherra mælir hér fyrir fjárlagafrumvarpi með 60 milljarða útgjaldaaukningu, sem er bara fyrsta skrefið í áætlunum þessarar ríkisstjórnar um 200 milljarða útgjaldaaukningu á næstu fimm árum, má spyrja: Hvaða skatta á að hækka til þess að fjármagna þessa útgjaldaaukningu? Því að það er alveg ljóst að öðruvísi verður þetta ekki fjármagnað. Þær forsendur sem lagt er upp með og lagðar eru til grundvallar fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar eru þegar úr sér gengnar. Gengisforsendur eru þegar úr sér gengnar. Þegar eru komin fram skýr merki um að kólnun hagkerfisins er mun hraðari en talað var um síðasta vor. Tekjur ríkissjóðs munu hvorki standa undir þeim útgjaldaloforðum sem hér er verið að veita né þeim útgjaldaloforðum sem unnið er út frá í fimm ára ríkisfjármálaáætlun. Þess vegna er hér einföld spurning, virðulegur fjármálaráðherra: (Forseti hringir.) Hvaða skatta á að hækka?