149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að segja að það er nýbreytni og hún er fersk og henni er tekið fagnandi að koma hér í fjárlagaumræðu þar sem menn standa ekki með steyttan hnefann og segja: Það vantar meira fé í alla málaflokka. Það hefur í raun og veru verið upphaf fjárlagaumræðunnar öll síðastliðin ár og heilbrigðiskerfið efst í þeirri umræðu. Það er breytt núna. Nú segja menn að við séum komin að ytri mörkum útgjaldavaxtar og við þurfum að fara að huga að því að draga úr og jafnvel sé ekki innstæða, eins og hv. þingmaður orðar það, fyrir útgjaldaloforðum í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi.

Hvað er breytt? Af hverju ættum við að trúa þessu núna umfram það sem var hér áður fyrr þegar við höfum verið að fara í gegnum sveiflu? Ég skal segja hvað ég tel að sé breytt. Þetta er allt annað hagkerfi. Við erum einfaldlega ekki fiskveiðiþjóð lengur. Við bættum orkuvinnslu við. Nú höfum við fengið á undanförnum árum ferðaþjónustu, viðskiptajöfnuð þrátt fyrir vöruskiptahalla. Þetta er einfaldlega bara allt annað hagkerfi heldur en við bjuggum í hér í fyrri hagsveiflum. Allt annað hagkerfi. Við erum með mun fjölbreyttara hagkerfi. Við höfum greiðari aðgang að alþjóðamörkuðum. Við erum komin með fleiri aðila í íslenska hagkerfinu sem byggja afkomu sína á alþjóðaviðskiptum. Skuldastaða ríkissjóðs hefur sjaldan verið betri í sögunni til þess að takast á við áföll.

Talandi um sjálfbærni ríkisfjármála hér fyrr á árum þá gáfu menn út lífeyrisskuldbindingar ófjármagnaðar eins og við sjáum af ófjármögnuðum 600 milljarða skuldbindingum í B-deildinni. Þessu höfum við líka breytt. Við höfum lokað þessu gagnvart A-deildinni og erum byrjuð að greiða niður B-deildina. Það er því miklu meiri sjálfbærni í öllum okkar aðgerðum. Við erum að vinna samkvæmt langtímaáætlun. Allt þetta segir mér að við erum í allt annarri og betri stöðu en áður var. Hér er ég ekki einu sinni farinn að ræða um það hvað fjármálakerfið er miklu stæltara, sterkara, betur fjármagnað með eigið fé o.s.frv. heldur en áður hefur verið. Við erum bara einfaldlega í allt annarri stöðu til þess (Forseti hringir.) að takast á við áföll.

Ég er ekki að huga að neinum skattahækkunum. Ég tel að ef í harðbakkann slær eins og hér er gefið í skyn að gæti gerst þá (Forseti hringir.)þurfum við að aðlaga okkur að þeim veruleika. Þá væri nær að lækka skatta til þess að hjálpa (Forseti hringir.) mönnum í gegnum þann tíma en að hækka þá.