149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er spurt: Hvað gerum við ef afkomumarkmiðið næst ekki? Bara með fullri virðingu þá kom mér til hugar að ég var einu sinni í bílferð með dóttur mína og hún spurði hvort ég hefði einhvern tímann lent í árekstri. Ég sagði: Það hefur reyndar gerst en ekki oft. En hvað gerum við ef einhver kemur og klessir á okkur? Ég sagði: Ja, við verðum að vona að það verði ekki mikill árekstur og við bara tökum á því ef það gerist, alveg eins og ef einhver markmið sem við höfum sett okkur um afkomu ríkissjóðs ganga ekki eftir þá tökum við á því. Þá ræðum við það hvort við þurfum að grípa til aðgerða á útgjaldahliðinni og þá hvar, eða hvort það eru einhver önnur ráð til þess að taka á því. En við þurfum svo sannarlega að ræða það hér.

Varðandi skuldaviðmiðið. Hlustið bara, hv. þingmenn, á það hvað við erum farin að ræða. Við erum farin að ræða um það að mögulega séum við bara komin of langt niður með skuldaviðmiðin. Þetta segir auðvitað sína sögu um það hversu ofboðsleg breyting hefur orðið á stöðu ríkissjóðs hvað þessa hluti snertir.

Þetta er alveg hárrétt ábending hjá hv. þingmanni að það er eðlilegt að ríkið haldi úti ákveðinni skuldastöðu á skuldabréfamarkaði til þess að hjálpa til við að halda dýpt hans og mynda þannig vaxtafót. Þetta á bæði við á innlenda markaðnum og ekkert síður í erlendum útgáfum þannig að við ryðjum brautina fyrir markaðinn inn á erlenda markaði og myndum ákveðið gólf sem aðrir geta þá byggt ofan á. Það er sannarlega ástæða til að huga að þessu. Ég held við séum ekki komin það langt niður með skuldirnar að þetta sé að verða eitthvert sérstakt vandamál.

Ég nefndi 20% bara til þess að setja það í samhengi við skuldaviðmiðið, þar á milli í landsframleiðslu upp á 3.000 milljarða sem við stefnum í, væru u.þ.b. 300 milljarðar. En ég vísa að öðru leyti til langtímaáætlunarinnar um þetta.

Varðandi stefnumál og kostnaðarmat þá er ég sammála hv. þingmanni. Það skiptir máli þegar ráðuneyti eru að setja fram markmið og stefnur sínar í einstökum málaflokkum. Við erum að reyna að byggja upp (Forseti hringir.) getu ráðuneytanna til þess að gera þetta betur og betur ár frá ári og þá skiptir auðvitað máli að það sé eitthvert raunhæft mat (Forseti hringir.) á bak við fjármögnun þeirra verkefna.