149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi kostnaðarmatið og stefnu, gerð eða markmiðasetningu í áætlunum ríkisstjórnarinnar, þá langar mig til að ítreka það sem við höfum áður rætt að við erum að stórauka áhrif en líka ábyrgð einstakra ráðuneyta um þessa málaflokka. Það birtist líka með sínum hætti varðandi fylgiritið, ráðherrar hafa innan fjárlagaársins ákveðnar heimildir til þess að forgangsraða að nýju innan fylgirits og færa á milli málaflokka fjármuni eftir sínum áherslum, eftir því sem ráðherrar meta þörf á því, og það er síðan rætt við fjárlaganefndina. Þetta er alveg tilvalið umræðuefni fyrir morgundaginn með þeim ráðherrum sem eiga við hverju sinni.

Varðandi séreignarsparnaðinn og skattfrjálsa úrræðið sem við höfum verið að nýta þá er núna að líða undir lok tímabil þar sem við vorum með almenna skattaívilnun fyrir alla vegna húsnæðisskuldavandans á sínum tíma, en eftir situr þá löggjöfin þar sem sérstaklega er horft til fyrstu íbúðarkaupenda. Þetta var ávallt hugsað sem tímabundið úrræði, þetta almenna úrræði sem er að renna sitt skeið um mitt næsta ár. Þegar við auglýstum á sínum tíma að nú væri að renna út frestur til þess að koma sér inn í þetta úrræði þá stórfjölgaði umsóknum um að fá að taka þátt, ég man eftir því. Ég held að það væri mjög fróðlegt þegar að þessum tímamótum kemur að við látum gera úttekt á því hversu margir hafa nýtt sér úrræðið og hvaða heildarfjárhæðir eru þar undir.

Að öðru leyti get ég tekið undir margt sem hv. þingmaður segir varðandi húsnæðismarkaðinn og sparnað í landinu. Það er mikilvægt samhengi þarna á milli. Mér er hins vegar yfirleitt efst í huga að sagan sýnir bæði hér á landi og annars staðar að ef við gerum (Forseti hringir.) fólki kleift að eignast eigið húsnæði þá eru mestar líkur á því að á efri árum hafi það meira á milli handanna.