149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:29]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Ég þakka svar hæstv. fjármálaráðherra. Ég er reyndar engu nær um það með hvaða hætti þessum sjóði yrði beitt. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það þarf auðvitað að hafa uppi nokkurn viðbúnað vegna þeirra aðstæðna sem ráðherra reifaði í sínu svari, sem er að það mun fyrirsjáanlega geta runnið umtalsvert fé eftir þeim farvegi sem hér hefur verið lýst, á vegum orkumálanna. Þá er spurningin hvort það myndi nægja að ákveðin deild í ráðuneyti ráðherrans myndi fjalla um þetta mál eða að sett sé upp ný stofnun af þessu tagi.

Mér finnst mjög áberandi, vil ég leyfa mér að segja, herra forseti, að við fáum enga hugmynd, jafnvel ekki einföldustu drætti um það með hvaða hætti þessi sjóður á að starfa eða við hvaða aðstæður honum yrði beitt eða hverjir gætu notið útgreiðslna úr sjóðnum. Samt er þetta ítrekað. Ég geri mér alveg grein fyrir að hér er væntanlegt frumvarp og þá væntanlega verður sýnt á spilin. En ég leyfi mér samt sem áður að segja að það er greinilegt að þetta er mikið áherslumál hjá hæstv. ráðherra. Hann notar hluta af sínum takmarkaða tíma í framsöguræðu sinni en við fáum ekki meiri upplýsingar en raun ber vitni. Jæja. Það er ekki annað að segja en að að minnsta kosti sum okkar hér bíða spennt eftir frumvarpinu.