149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski með fullum rétti sem menn benda á að það mætti koma frekari upplýsingar um þetta. Ég hef bara litið þannig á að sú umræða myndi öll eiga sér stað undir umræðu um þingmálið sjálft. Það er hluti af frumvarpssmíðinni að svara sumum af þeim spurningum sem hv. þingmaður nefnir.

Ég hef þá sýn á þetta að það yrði komið upp algerlega sjálfstæðri einingu utan arms fjármálaráðuneytisins sem fylgdi ströngum lagaskilyrðum um það með hvaða hætti ætti að meðhöndla tekjustreymið eða sjóðinn sem yfir tímann byggist upp. Það á bæði við um það hvernig honum er ráðstafað til fjárfestinga, sem ég sæi fyrir mér að væri fyrst og fremst utan landsteinanna í dreifðu, öruggu eignasafni, og eins um það hvenær útgreiðslur úr sjóðnum kæmu til álita. Eins og ég sé þetta fyrir mér, og ég vænti þess að um það verði fjallað í frumvarpinu með mjög skýrum hætti, þyrfti mjög mikið til að koma til þess að hægt væri að halla sér að sjóðnum. Þá dygðu engin minni háttar skammtímaáföll, eitthvað sem venjulegt er og alltaf má búast við, heldur meiri háttar áföll þar til að sjóðurinn er það sem við gætum mögulega kallað fullfjármagnaður.

Ég held að það eigi ekki að setja inn í sjóðinn endalaust bara til þess að sjá hann stækka og stækka heldur verðum við að horfa til þess að við erum að byggja allt ríkisfjármálakerfið okkar á sjálfbærni. Við erum þess utan með vel fjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar og gríðarlega sjóði í lífeyriskerfinu. Seðlabankinn verður að hafa styrk til að halda úti góðum gjaldeyrisvaraforða og það er engin ástæða til að vera með einhver óhófleg eða óraunsæ efri mörk á stærð svona sjóðs. En það er líka hluti af umræðunni um það hvernig þessu fyrirkomulagi verður best komið á koppinn. (Forseti hringir.)

Ég hef fundið fyrir því að það sýnist dálítið sitt hverjum í þessu. Ég hlakka bara til þeirrar umræðu. Verði ekkert af hugmynd um þjóðarsjóð er ljóst að greiðslurnar renna bara inn í ríkissjóð og við tökum þá umræðu, um ráðstöfun teknanna í tengslum við fjárlög hverju sinni.