149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:34]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Þegar maður rýnir í fjárlagafrumvarpið sér maður að sjálfsögðu ýmislegt sem er jákvætt. Enda veltir ríkið um 900 milljörðum kr. og Ísland er 11. ríkasta land í heimi þannig að hér er svigrúm til að gera ýmislegt.

Hins vegar er ljóst að mati Samfylkingarinnar að það er talsvert í þessu frumvarpi sem veldur vonbrigðum og svigrúm til að bæta kjör þeirra sem lægstar hafa tekjurnar er ekki nýtt. Í fyrsta lagi virðist ríkisstjórnin ekki vera tilbúin til að ráðast gegn þeim mikla eignaójöfnuði sem ógnar beinlínis stöðugleika á vinnumarkaðnum. Það skiptir máli. Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra verður tíðrætt um stöðugleika. En þessi mikli eignaójöfnuður ógnar þeim stöðugleika. Ég þreytist seint á að benda á að 1% ríkustu Íslendinganna á meira af hreinum eignum en 80% þjóðarinnar. Stækkum aðeins hópinn. Tökum 5%. 5% ríkustu Íslendinganna eiga næstum því jafn mikið og hin 95%. Þessi staða sýnir að hér er ekki rétt skipt. Þetta er ekki réttlátt. Fólki svíður þetta.

Og í guðanna bænum, ágætu þingmenn, ég er að tala hér um eignaójöfnuð. Ég er ekki að tala um jöfnuð tekna. Við skulum ekki láta umræðuna fara hingað og þangað, ég er að tala um eignaójöfnuð. Hann er mikill á Íslandi. Tekjujöfnuðurinn er talsvert meiri. Ég er að fókusera á eignaójöfnuðinn. Hann er vandamál. Þess vegna er mjög skrýtið að hafa hér ríkisstjórn sem beinlínis stuðlar að auknum ójöfnuði eigna. Hér er ekki ríkisstjórn sem fer í hina áttina og reynir að draga úr þessum eignaójöfnuði.

Við sjáum að hér er kallað eftir aðhaldi af ýmsum. Aðhald er mikilvægt, að sjálfsögðu, við getum ekki gert allt fyrir alla, ég er ekki að biðja um það. En ég vil draga fram að það gleymist alltaf þegar við erum að tala um aðhald í ríkisrekstri að aðhald snýst ekki bara um að skera niður útgjöld eins og hægri menn nálgast alltaf orðið aðhald. Aðhald getur líka falist í því að auka tekjur á móti, auka tekjuúrræði ríkissjóðs, ekki síst á þessum tíma hagsveiflunnar þegar blikur eru á lofti og hefði átt að vera búið að gera það miklu fyrr eins og við í Samfylkingunni og fleiri höfum lagt til. Við höfum lengi kallað eftir að fá meiri tekjur af erlendum ferðamönnum. Við höfum kallað eftir hækkun kolefnisskatts. Eitt það fyrsta sem þessi ríkisstjórn gerði var að hætta við fyrirhugaða hækkun kolefnisgjalds sem fráfarandi ríkisstjórn ætlaði að leggja fram. Og nú ætla þau að hækka aðeins kolefnisgjaldið en þær hækkanir ná ekki þeim fyrirhuguðu hækkunum sem áttu að taka gildi þegar þessi svokallaða græna ríkisstjórn, sem er ekki mjög græn að mínu mati hvað þetta varðar, tók við völdum.

Fjármagnstekjuskatturinn. Það er líka vannýttur tekjustofn. Hann á núna að skila 2 milljörðum kr. minna í ríkiskassann en fjármálaáætlunin frá því í vor gerði ráð fyrir. Auðvitað er hann sveiflukenndur skattstofn, ég átta mig á því. En ég minni á sem dæmi um hvað fjármagnstekjuskatturinn á vel við þá sem hæstar hafa tekjurnar, takið eftir þessu, að einungis 2% fjölskyldna greiddu fjármagnstekjuskatt vegna söluhagnaðar af hlutabréfum. 98% gerðu það ekki. Þetta er líka vísbending um eignaójöfnuð. Þetta er vannýttur tekjustofn.

Auðlindagjaldið. Að sjálfsögðu eigum við að hafa myndarleg auðlindagjöld, hvort sem litið er til fisksins, orkunnar eða annars. Samkvæmt þessu frumvarpi er stefnt að því að veiðileyfagjöld eigi að vera 7 milljarðar. Í fjárlagafrumvarpinu í fyrra, fyrir þetta ár, 2018, var gert ráð fyrir að veiðileyfagjöldin væru 10 milljarðar. Þau eru 7 milljarðar núna. Það á að lækka þau um 3 milljarða.

Ég minni sérstaklega á að hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja hefur verið gríðarlega mikill. Á sjö ára tímabili var hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja 300 milljarðar kr. Á fimm ára tímabili var arðurinn sem eigendurnir drógu úr fyrirtækjum sínum 50 milljarðar. Að sjálfsögðu er þetta grein sem getur lagt meira í sameiginlega sjóði, ekki síst í ljósi þess að hún er að nota sameiginlega auðlind samkvæmt lögum. Þessi fyrirtæki eiga ekki fiskinn í sjónum. Við eigum hann. Þess vegna er þetta „no-brainer“ að mínu mati. En enn þá vill ríkið einungis hafa 1% af sínum tekjum í formi veiðileyfagjalda. 1% af tekjum ríkisins. Það er sérkennilegt að þjóðin sem er eigandinn að þessari auðlind þurfi að sætta sig við að fá einungis 1% af tekjum sínum af sinni meginauðlind. Þetta er sérkennileg forgangsröðun.

Svo er hér trommað upp með: Jú, við ætlum að gera eitthvað fyrir fólkið, við ætlum að hækka persónuafslátt. Gott og vel. Hvað er hann að fara að hækka um umfram verðlag? 530 kr. Svona eins og við myndum, með grófum reikningi, hækka skattleysismörkin um 1.500 kall, fyrir utan samspil þarna á milli. Það er nú allt og sumt. 530 kr. hækkun persónuafsláttar á mánuði. Sérkennilegt.

Enn þá stendur til að lækka bankaskattinn um 7 milljarða. Ekki á næsta ári en samkvæmt áætluninni á að lækka bankaskattinn. Er það nú forgangsmál? Auðvitað mun hann einhvern tíma renna út, ég átta mig alveg á því. Þetta var tímabundinn skattur. En er það forgangsmál að lækka hann um 7,3 milljarða? Höfum við ekki eitthvað meira við þessa 7 milljarða að gera en að lækka bankaskattinn? Kannski setja hann í spítalann? Af hverju ekki? Þjóðin hefur kallað eftir því. Við höfum öll umboð til að setja meiri pening í spítalanna. Allir flokkar voru kosnir út á það, heilbrigðismálin eru númer eitt, tvö og þrjú í hugum kjósenda. En ef við lítum bara á sjúkrahúsþjónustuna fær hún helmingi minna, samkvæmt frumvarpinu, en það sem Landspítalinn sagði okkur þingheimi að þyrfti bara til að halda sjó. Hann sagði: Okkur vantar árið 2019 5,4 milljarða. Hér koma 2,5. Takið eftir því. Til næstu fimm ára segir Landspítalinn að vanti 87 milljarða. Þetta stendur í skrifaðri umsögn Landspítalans. Og þegar Landspítalinn segir að það vanti 87 milljarða, ég er ekki að tala um uppbyggingu spítalans, hún er út fyrir sviga hvað þetta varðar, þá er ekki hægt að segja þjóðinni að hér sé einhver stórsókn í heilbrigðismálum.

Fólk þarf ekki endilega að trúa mér. Þetta er bara mat Landspítalans á sinni þörf.

Þeir fjármunir sem eiga að renna til öryrkja eru fyrst og fremst vegna fjölgunar þeirra. Jú, það fara 4 milljarðar í þann málaflokk en það dugar einungis fyrir einum þriðja af því sem afnám krónu á móti krónu kostar. Samkvæmt bandorminum sem við munum ræða í næstu viku er gert ráð fyrir óbreyttu frítekjumarki vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega. Sérkennilegt.

Aldraðir. Aukning þar í fjármunum er fyrst og fremst vegna fjölgunar í þeirra hópi.

Ríkisstjórnin var með háleit markmið varðandi háskólastigið: Við ætlum að ná OECD-markmiðinu og Norðurlandamarkmiðinu. Það vantar samt helmingi meiri fjármuni til að ná því. Helmingi meira. Og samkvæmt fjármálaáætluninni sem er til fimm ára er ekki gert ráð fyrir að það náist. Það sem stendur í stjórnarsáttmálanum er bara svikið. Lítum á framhaldsskólana. Kíkið á bls. 140 í frumvarpinu. Framhaldsskólarnir fá lækkun milli ára. Hvaða innspýting er það í skólakerfið? Löggæslan. Hún fær fyrst og fremst hækkun vegna landamæravörslu, þyrlukaupa og aðeins vegna fjölgunar ferðamanna. Hún er líka komin að þolmörkum og hefur sjálf kallað eftir auknum peningum og fjármunum frá hinu opinbera.

Heildarstuðningur vegna húsnæðisstuðnings. Kíkið á töfluna á bls. 140. Þar er hækkunin 0,8%. Hæstv. ráðherra gat sérstaklega um að það væri verið að auka það. Það er innan skekkjumarka, myndi ég nú segja. Ef litið er á málefnasviðið um húsnæðisstuðning má sjá að heildargjöldin eru nánast óbreytt milli ára.

Barnabæturnar. Jú, það er jákvætt að nú á að fara að hætta að skerða þær undir lágmarkslaunum. En ég vil rifja upp að við erum búin að leggja það fram tvisvar sinnum í þessum þingsal. Að sjálfsögðu eiga barnabætur ekki að skerðast undir lágmarkslaunum. Og tvisvar sinnum hefur þessi ráðherra og þessir ríkisstjórnarflokkar fellt þá tillögu. Auðvitað fögnum við því að barnabætur skerðast ekki lengur undir lágmarkslaunum. En betur má ef duga skal. Og nú á að auka skerðinguna hjá millitekjufólkinu. Skerðingin mun aukast hjá þeim sem eru með 450 þús. kr. eða meira. Það er verið að klípa aftur af barnafólki, sem er sérkennileg forgangsröðun.

Vaxtabætur. Það er talað um að það sé aukning í vaxtabótum. Nei, það var gert ráð fyrir 4 milljörðum í vaxtabætur á þessu ári, þeir verða bara 3 út af skerðingunum og nú ætlar ríkisstjórnin að segja 3,4. Hún kallar það hækkun. Þetta er ekki hækkun, þetta er bókhaldsleikfimi.

Samgönguáætlunin er enn þá vanfjármögnuð, kemur að sjálfsögðu engum á óvart. Það er áhugavert að sjá að styrkir til almenningssamgangna aukast um heilar 150 milljónir króna, sem er sama upphæð og launaliður ríkisstjórnarinnar hækkar um vegna fjölgunar aðstoðarmanna.

Það er svo margt að þessu frumvarpi. (Forseti hringir.). Svigrúm er svo sannarlega fyrir hendi að gera hér betur en til þess virðist svo vera að við þurfum að fá nýja ríkisstjórn sem er með sanngjarnari forgangsröðun, sem forgangsraðar í þágu (Forseti hringir.) venjulegs fólks í þessu landi. Þessi ríkisstjórn staðfestir með þessu frumvarpi að hún er ekki að gera það.