149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:45]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Svona rétt örstutt. Nú heldur hv. þingmaður áfram að ræða um að skattleggja ferðaþjónustuna enn frekar. Sú umræða hefur mikið komið frá flokki hans undanfarin ár. Mig langar að spyrja á þessum tímapunkti hvar hv. þingmaður vill fara áfram með þá skattheimtu miðað við ástandið sem er að skapast í atvinnugreininni, sem er síðan 42% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar, grundvallaratvinnuvegur. Hvar á frekari skattheimta að fara fram?

Síðan er rétt að spyrja: Við aukum um 55 milljarða í frekari gjöld og eyðslu ríkisins, í hina ýmsu þætti. Það er ekki nóg samkvæmt málflutningnum. Hvað erum við að tala um að eigi að bæta við miklu? 50 milljörðum í viðbót? 100 milljörðum? 200 milljörðum? Hver á upphæðina að vera? Og hvar liggja þá þær hugmyndir? Hvaða tölur ætlum við að ræða? Það væri fínt ef við gætum líka fengið þann vinkil, hvert menn ætla að fara í þeirri umræðu.

Við höfum í þrjú ár í röð bætt 50 milljörðum eða meira í útgjöld ríkisins, 7–9% á ári. Ég vil vita upp í hvað við eigum að fara. Eigum við að fara upp í 12% aukningu? 15%? Hvað er nóg?