149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:46]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins að ferðaþjónustunni fyrst. Hér er á ferðinni glatað tækifæri að mörgu leyti. Árið 2008 komu hingað 500 þús. ferðamenn, fyrir tíu árum. Núna eru þeir 2,5 milljónir. Við hefðum átt að vera löngu búin að taka einhver skref einmitt á þeim tíma, þar sem ferðaþjónustan gekk betur þá en hún gerir nú, til að tryggja auknar tekjur af ferðamönnum. Hér voru hugmyndir um að hækka virðisaukaskattinn. Auðvitað var greinin ekkert hrifin af því, en ég rifja það samt upp að þessi stærsta atvinnugrein landsins er í undanþáguþrepi í virðisaukaskatti, (Gripið fram í.) í lægra þrepinu, meginþrepið er 24%, hitt er 11%. Það eru sérstakar vörur settar í 11%, matur og annað slíkt. Það er sérkennilegt. Ferðaþjónustan og ferðaþjónustufyrirtækin eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Sum eru mjög sterk, önnur eru veik, ég átta mig alveg á því. Það skiptir máli að hér sé blómleg ferðaþjónusta, að sjálfsögðu. En það er sérkennilegt að hafa stöndug fyrirtæki sem greiða lægri virðisaukaskatt en meðalsjoppa úti í bæ. Það er sérkennilegt.

Svo má líka ræða aðrar hugmyndir sem þessi ríkisstjórn hefur verið feimin að tala um. Það eru hugmyndir um komugjöld, brottfarargjöld, einu sinni voru hugmyndir um náttúrupassa. Það þarf bara að leiða þetta mál til lykta, því að þessi grein þarf að sjálfsögðu aðlögunartíma. Hún þarf aðlögunartíma, ég átta mig alveg á því. En ég óttast núna að þetta tækifæri sé að hluta til glatað, því miður. Við verðum samt alltaf með ferðaþjónustufyrirtæki. Við þurfum að taka þessi skref til að tryggja auknar tekjur af erlendum ferðamönnum. Því að alveg eins og er með sjávarútvegsfyrirtækin og orkuna, þá er þessi iðnaður að nýta sér sameiginlega auðlind. Hver er sameiginlega auðlindin? Það er náttúran okkar. Það er mannauðurinn. Það er menningin. Við hljótum því að vera tilbúin í það samtal um að tryggja auknar tekjur af ferðaþjónustu alveg eins og við viljum fá auknar tekjur af öðrum burðargreinum þjóðarinnar. Ég kem í seinna andsvari að útgjöldum á eftir.