149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:56]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi tölur um Landspítalann þá stendur á bls. 133, með leyfi forseta:

„Þar má nefna í fyrsta lagi að gert er ráð fyrir að framlög til sjúkrahúsaþjónustu hækki um 2,5 milljarða kr. sem skýrist fyrst og fremst af vaxandi eftirspurn í veittri þjónustu vegna íbúafjölgunar og hækkandi lífaldurs þjóðarinnar.“

Hv. þingmaður er spennt fyrir því að fá umsögn Landspítalans. Ég er líka spenntur fyrir því að fá umsögn Landspítalans um þetta frumvarp. Ef hún verður svipuð og ég og hv. þingmaður fengum í fjárlaganefndinni þá munu þeir benda á að það vanti aukna fjármuni. Er hv. þingmaður þá tilbúin að hlusta á Landspítalann þegar hann kallar eftir auknum fjármunum? Mig minnir að eftir alla okkar vinnu í fjárlaganefndinni í fyrra þá hafi nánast engar breytingar verið gerðar eftir að fjárlagafrumvarpið kom fram. Þrátt fyrir þessa vinnu hjá fjárlaganefnd, hvort sem það er um fjárlagafrumvarp, fjármálastefnu eða fjármálaáætlun, eru engar breytingar. Þingið í þessari vinnu sannar enn og aftur hvers konar afgreiðslustofnun við erum fyrir ráðherra. Við fáum mjög fínar umsagnir frá ýmsum hagsmunaaðilum en það er ekki hlustað á neitt. Vonandi verður breyting á því. Ef Landspítalinn er að kalla eftir auknum fjármunum sem þingmaðurinn segir að hún styðji, þá gerir hún það bara. Það er alveg hægt. Það er bara pólitískur vilji sem ræður því.

Hv. þingmaður talar líka um að Ísland sé orðið dýrt. Af hverju er Ísland orðið dýrt í augum erlendra ferðamanna? Það er bara ein ástæða fyrir því. Það er íslenska krónan. Raungengi krónunnar í sumar hefur aldrei verið eins sterkt. Nú er það að falla, gefa eftir. Nú er Ísland orðið dýrara en Sviss og Noregur. Það er út af krónunni. Þess vegna var ég svolítið hissa á ræðu hæstv. fjármálaráðherra áðan, ég skildi hann þannig að stöðugur gjaldmiðill væri ekkert endilega eftirsóknarverður. Jú, hann er mjög eftirsóknarverður. Það er nú nógu erfitt að vera í atvinnulífi á Íslandi þó að það bætist ekki líka við að maður þurfi að vera einhver sérfræðingur í gjaldeyrismálum. En íslenska krónan er svo sveiflukennd, svo óstöðugur gjaldmiðill, að hún veldur kostnaði hjá atvinnulífinu og ekki (Forseti hringir.) síst hjá þjóðinni. Það má ekki halda að gengisfelling sé ókeypis. Þegar gengisfelling verður þá gerist það alltaf á kostnað almennings. Þá kemur hærri verðbólga, hærri vextir o.s.frv. Gengisfelling (Forseti hringir.) er ekki lausn á slæmum gjaldmiðli. Lausn á slæmum gjaldmiðli er nýr gjaldmiðill.