149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:00]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður segir: Við getum alltaf gert betur. Allt í lagi, gerum þá betur. Það er tækifæri til að gera betur. Við höfum úr 900 milljörðum að spila. Það er hægt að gera betur. Það er hægt að hækka persónuafsláttinn um meira en 500 kr., hv. þingmaður. Það er hægt að láta framhaldsskólana fá hækkun á milli ára en það er lækkun í frumvarpinu. Það er hægt að mæta þörf Landspítalans til að halda lágmarkinu að þeirra mati. Þeir tala um 5,4 milljarða í sjúkrahúsþjónustu og það eru 2,5 milljarðar hér. Það fer ekki allt í kaldakol ef eðlilegum kröfum er mætt um fjármagn í innviði, sem ég veit að hv. þingmanni er annt um. Þetta sýnir bara að áhrif og völd og ítök Vinstri grænna eru afskaplega lítil þegar kemur að ríkisfjármálunum. Þetta eru Sjálfstæðismenn, Sjálfstæðisflokkurinn sem stjórnar þessu, sem er íhaldsflokkur, status quo flokkur og hefur alltaf verið það. Það á ekki að koma neinum á óvart og allra síst þeim sem velja að starfa með þeim á þessum tímapunkti.

Hv. þingmaður minntist aðeins á samneysluna. Ég man ansi vel að í fjármálaáætluninni sem við afgreiddum í vor, sem er til fimm ára, dregst hún saman næstu fimm árin, reyndar lítillega en hún dregst saman. Samneysla er neysla hins opinbera, þannig að á næstu fimm árum verður samneyslan lægra hlutfall af landsframleiðslu en núna. Það er mjög sérstakt því að boðuð hefur verið opinber innviðauppbyggingu og þjóðin er að eldast, sem kallar á aukna fjármuni í heilbrigðiskerfið. Fjöldi eldri borgara mun tvöfaldast á næstu 25 árum. Á næstu 50 árum mun Íslendingum fjölga um 100.000, þar af verða 75.000 eldri borgarar. Í dag náum við ekki að sinna þessu fólki. Í dag er fólk að kljást við kerfið og bíða eftir úrræðum fyrir foreldra sína eða sig sjálft. Hvernig haldið þið að það verði eftir 10, 15, 50 ár? (Forseti hringir.) Það er ástæða til að vera svartsýnn á meðan metnaðarleysið er á því kaliberi sem raun ber vitni.