149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er að mörgu leyti sammála því sem hann nefndi. Ég þekki það af störfum í fjárlaganefnd undir formennsku hans að hann er skynsamur maður þegar kemur að fjárlögum, en hann er ekki sá sem ræður þessu heldur er það ríkisstjórnin sem leggur línurnar. Þar hefði átt að taka meira til hendinni að mínum dómi. 636 milljónir í launakostnað fyrir ríkisstjórnina á ári er verulega há upphæð. Það er einmitt þarna sem á að sýna gott fordæmi í ráðdeildarsemi. Ég spyr: Er þörf fyrir alla þessa aðstoðarmenn, svo dæmi sé tekið? Það eru vissulega margir þættir sem hægt er að skoða.

Hv. þingmaður nefndi t.d. heilbrigðiskerfið. Við höfum fengið fréttir af því og það hefur verið í fjölmiðlum að verið sé að fara leiðir í kostnaðarþátttöku sjúklinga sem eru margfalt dýrari en hefði verið hægt að fara hér heima ef viðkomandi hefði fengið að leita sér lækninga hjá t.d. fyrirtæki eins og Klínikinni. Það er víða hægt að hagræða á þennan hátt. Stundum finnst manni að verið sé að spara aurana og kasta krónunni í ríkisrekstri, því miður.

Ég vil líka nefna að menn verða að horfa á forsendurnar. Hvernig er þróunin fram undan? Hún er mjög óviss. Í því ljósi er afar brýnt að menn horfi á heildarmyndina, reyni að hagræða (Forseti hringir.) og séu tilbúnir til að mæta mögru árunum af skynsemi.