149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:23]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er nú ánægjulegt að vera að tala hér um fjárlög. Mér hefur alltaf þótt það svolítið skemmtilegt, búin að vera viðloðandi fjárlaganefnd frá því ég var varaþingmaður fyrir nokkuð mörgum árum og síðan ég settist á þing 2013. Það er einkennandi fyrir þá umræðu að það eru gjarnan fáir í salnum að hlusta en þyrftu kannski einmitt að hlusta.

Fyrir kosningarnar töluðum við Vinstri græn um að það þyrfti að auka framlög til samfélagslegra verkefna í kringum 40–50 milljarða á kjörtímabilinu. Nú erum við nálega að tvöfalda þetta á helmingi þess tíma því að fjárlög 2018 og það frumvarp sem við fjöllum hér um gera samtals ráð fyrir 93 milljarða aukningu. Fjármálaáætlun mætti talsverðri gagnrýni þar sem sumum þótti hún ekki ganga nægilega langt og vildu sjá enn ríflegri úthlutanir til ýmissa málaflokka en þar var gert ráð fyrir. Öðrum þótti of mikið að gert. Það sama má væntanlega segja um þetta nýframkomna fjárlagafrumvarp eins og við höfum heyrt í umræðunni. En við sem stöndum að þessu máli teljum að þrátt fyrir að útgjöldin séu aukin verulega samræmist það meðalhófinu hvað varðar framkvæmdir hins opinbera og áform um nauðsynlega uppbyggingu í öllu samfélaginu.

Hér hefur mikið verið rætt um jöfnuð. Að auka jöfnuð í samfélaginu er ekki aðeins mikilvægt fyrir þá sem eru verst settir heldur varðar það okkur öll. Í jöfnum samfélögum lifir fólk nefnilega lengur, börnunum okkar gengur betur í skóla og fólki bara líður almennt betur. Við megum heldur ekki gleyma því að aukinn jöfnuður felst í afar mörgum aðgerðum. Það finnst mér oft gleymast í umræðum um fjárlög, fólk festist oft í einhverjum einum eða tveimur liðum. Til dæmis jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu sem er óháð efnahag og búsetu. Það er réttlætismál sem gagnast öllum. Það er lífskjaramál og það er í raun óásættanlegt að við séum ekki á pari við Norðurlöndin en þangað viljum við stefna. Þess vegna finnst okkur Vinstri grænum mikilvægt að í þessum fjárlögum eru tæpir 13 milljarðar í aukningu til heilbrigðismála.

Við höfum rætt svolítið um stöðu þeirra sem lakar standa. Þar er staðan að mörgu leyti óásættanleg. Verðlagshækkanir bitna auðvitað alltaf verst á þeim sem minnst eiga og í hvert sinn sem laun í landinu hækka fer stærri hluti af tekjum lágtekjufólks í skatt en áhrifin á hátekjufólk eru ekki jafn mikil. Þessi síendurtekna þróun undanfarin ár hefur orðið til þess að skattbyrðin hjá lágtekjufólki hefur aukist meira og mun meira en skattbyrði hátekjufólks. Þannig að til að, hvað getum við sagt, eitt gangi yfir alla verður efsta skattþrepið að hækka í samræmi við neysluverð í stað launavísitölu. Verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir þessu mjög lengi. Þetta skref erum við að taka hér þar sem við erum að festa mörk efra þrepsins við neysluvísitölu í samræmi við neðra þrepið. Það skilar fleiri krónum til þeirra sem minnst hafa ólíkt flötum skattahækkunum sem skila auðvitað fleiri krónum í veski þeirra ríku en hinna fátæku.

Það má auðvitað ekki heldur gleyma því að við höfum nú þegar stigið ákveðin skref. Við höfum t.d. hækkað fjármagnstekjuskatt og atvinnuleysisbætur og við höfum líka aukið greiðslur í Ábyrgðasjóð launa. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að við erum með fólk sem glímir við erfiðar aðstæður. Börn eiga ekki að þurfa að alast upp í fátækt. Þess vegna erum við að hækka barnabætur til tekjulágra fjölskyldna og breyta skerðingarmörkunum sem tryggir það að stuðningurinn fari ekki upp allan tekjustigann heldur gagnist tekjulægri hópum og lágum millitekjuhópum í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í febrúar.

Við erum líka að leggja til aðgerðir sem eiga að grípa börn í hættu á að lenda í vanda með því að leggja til fjármuni í snemmtæka íhlutun. Við leggjum líka aukna fjármuni sem eru í kringum 4 milljarðar til handa örorkulífeyrisþegum og á að reyna að vinna í samræmi við tillögur sem koma frá samráðshópi félagsmálaráðherra sem er að fjalla um það efni. Sama má segja um öldrunarhópinn. Sem betur fer hafa flestir aldraðir á Íslandi það þokkalegt en við þurfum að mæta þeim hópi sem verr stendur.

Við leggjum líka til fjármuni til húsnæðismála, þó að mörgum þyki ekki nóg að gert frekar en í ýmsu öðru, og með auknum framlögum reynum við að skapa meira öryggi.

Það er ótal margt sem hægt er að fara yfir. Tíminn sem okkur gefst í 1. umr. er auðvitað naumur. Ég verð samt að fara yfir heilbrigðismálin sem eru ein af þessum stóru aðgerðum sem hér eru undir þar sem er, eins og ég kom inn á í andsvari áðan, hafin vinna við gerð heilbrigðisstefnu sem verður unnin í samráði við ýmsa aðila. Við erum að leggja fram mikla fjármuni til að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustaðar sem á að geta dregið úr sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu þegar fram í sækir. Við höfum lagt áherslu á að fullfjármagna geðheilbrigðisáætlunina sem mikið hefur verið kallað eftir og hæstv. heilbrigðisráðherra kynnti hér á dögunum á alþjóðadegi sjálfsvígsforvarna.

Settar eru 400 milljónir í jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag með því að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga. Við byrjuðum um mitt ár að lækka greiðsluþátttöku vegna tannlæknakostnaðar öryrkja og eldri borgara og við erum að bæta í þannig að þetta verður í kringum milljarður. Þetta eru löngu tímabærar aðgerðir sem hafa ekki verið uppfærðar til margra ára. Þegar fólk talar um að það sjáist ekki fingrafar Vinstri grænna er ég ekki sannfærð um að félagar mínir í Sjálfstæðisflokknum séu þar sammála. Ég held að það séu stór fingraför í þessu frumvarpi sem hægt er að rekja til okkar.

Annað risavaxið mál sem var kynnt hér á dögunum er aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Þar eigum við sem land að vera til fyrirmyndar. Við erum með fjölbreyttar aðgerðir undir. Það er lifandi plagg sem verður uppfært eftir því sem fram líða stundir og eftir því sem samráð við hina ýmsu aðila gefur til kynna að þurfi að gera. Við erum að sporna gegn matarsóun, ráðast í aðgerðir gegn plastmengun. Sú sem hér stendur situr einmitt í starfshópi sem á að skila af sér innan fárra vikna aðgerðaáætlun um það hvernig við getum dregið úr plastnotkun. Við ætlum að endurheimta votlendi, endurheimta birkiskóga o.s.frv. Við erum að leggja töluvert mikla fjármuni í skógræktina. Við ætlum líka að efla nýsköpun í loftslagsmálum eins og í svo mörgu öðru með því að veita fjármagn í loftslagssjóð. Við ætlum einnig að treysta innviðina með því að hlúa að náttúrunni okkar með aukinni landgræðslu.

Allt þetta skiptir máli, ekki síst í ljósi þessa mikla ágangs sem náttúran hefur orðið fyrir vegna gríðarlegrar aukningar í ferðaþjónustunni. Þó að hún hafi eitthvað dregist saman er það samt aukning enn þá miðað við það sem áður hefur verið.

Ég held að við getum verið afskaplega ánægð með þetta. Við getum auðvitað gert betur. Áherslurnar eru á ákveðna þætti eins og gefur að skilja á hverjum tíma. Við leggjum líka til aukna fjármuni í löggæsluna. Þó að ég telji að það mætti gera betur þar erum við samt sem áður að leggja til aukningu og við ætlum að kaupa þyrlur. Það er þannig af mörgu að taka. En auðvitað eins og hér hefur komið fram verður aldrei svo að við getum gert alla sátta, ég held að ég lifi þá tíma alla vega ekki að við getum lagt fram frumvarp sem allir verða óskaplega glaðir með. Við erum auðvitað að fást við samfélagslegt verkefni, að byggja upp samfélag, starfrækja samfélag. Það held ég að sé verkefni sem aldrei lýkur. Jafnvel þó að við búum í fyrirmyndarsamfélagi, góðu samfélagi, er það samt sem áður svo að við eigum alltaf að geta gert betur á hverjum tíma í hverjum einasta málaflokki.

Ég tel að hér séum við að stíga risavaxin skref í mjög mörgum hlutum, bæði í síðasta fjárlagafrumvarpi og eins í þessu, þar sem við erum að leggja til í þá málaflokka sem kallað hefur verið gríðarlega mikið eftir að þurfi að bæta í. Ég held að við eigum að geta lagt af stað inn í þennan vetur með góðum formerkjum og (Forseti hringir.) verið svolítið keik með þetta sem við erum að gera. Ég nefndi ekki einu sinni samgöngumálin sem eru einn af risastóru þáttunum sem skipta nú m.a. þessa sem hér stendur miklu máli í víðfeðmu kjördæmi.