149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nokkur atriði. Jú, líklega leggjum við ekki fram fjárlagafrumvarp sem allir eru ánægðir með. Því finnst mér mikilvægt að vera sanngjarn í þeirri gagnrýni sem ég legg upp með. Ég ætla að byrja á að spyrja aðeins um skattalækkanirnar sem voru áætlaðar, 1% lækkun á neðra tekjuskattsþrepinu eða sem samsvarar því. Það hefur komið í ljós að útfærslan á að vera sem samsvarar 1% en ekki 1% lækkun á neðra tekjuskattsþrepinu. Í fjárlagafrumvarpinu segir, og það var líka gert í fjármálaáætlun, að lækkunin eigi að taka gildi í fjórum jöfnum áföngum. En núna er lækkunin upp á 1,7 milljarða og hluti af því er meira að segja, ef ég skildi rétt, tilfærslan á því hvernig efra tekjuskattsþrepið er skilgreint.

Þetta er tæpur helmingur af því sem þyrfti ef lækka ætti í fjórum jöfnum skrefum, til að ná upp 14 milljörðum í fjórum skrefum. Að lokum þýðir þetta væntanlega í kringum 5 þús. kr. hækkun á persónuafslætti en við tökum skref núna upp á 500 kr. Mér finnst ójafnt og pínulítið ósanngjarnt ef sagt er að lækka eigi í fjórum jöfnum skrefum en svo er gert lítið núna og þess vegna greinilega mikið rétt fyrir næstu kosningar. Það er ósanngjarnt.

Mig langar að minnast á barnabætur. Nú er verið að breyta þeim þannig að það er tiltölulega hátt skerðingarhlutfall eftir meðaltekjur. Ég vil vekja athygli á því að það er ákveðin fátæktargildra. Það þýðir að lítil launahækkun á því bili felur í sér mikla skerðingu á barnastyrkina. Það getur verið dálítið erfitt að meðhöndla. Ég hlakka til að sjá nánari útfærslu á því atriði. Ef hv. þingmaður gæti fjallað aðeins um það vandamál (Forseti hringir.) bótakerfa sem getur leitt til ákveðinnar fátæktargildru væri það vel þegið.