149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég á við er að verið er að breyta barnabótunum á þann hátt að þær skerðast hratt eftir meðaltekjur. Fólk fær kannski ágætisbarnabætur en ef það hækkar lítillega í launum skerðast barnabæturnar mjög mikið, á litlu tekjubili.

Hv. þingmaður nefndi fulla fjármögnun á ýmsum verkefnum í ræðu áðan. Við vitum því miður ekkert um það því að kostnaðarmat vantar á nokkurn veginn allar aðgerðir, t.d. með aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Þar erum við með mjög fínan pakka, lifandi plagg og allt það. Við vitum að það eiga að fara 6,8 milljarðar í þau mál en við vitum ekki hvernig fjármagninu er skipt og hvort það dugir í raun og veru vegna þess að það er ekki kostnaðarmat og ekki ábatagreining um hvaða áhrif aðgerðirnar hafa. Við getum því ekki ef í harðbakkann slær forgangsraðað og byrjað á því sem skilar mestu eða byrjað á því sem skilar mestu til framtíðar ef eitthvað byrjar hægt, t.d. eins og með aukna skógrækt, það þarf að byrja snemma til að það skili einhverju til framtíðar.

Ég er pínu sorgmæddur yfir því að eins góðar og aðgerðirnar eru og eins ánægður og ég er að heyra hjá umhverfisráðherra að þetta sé lifandi plagg og það komi til með að bætast við upplýsingar um kostnaðarmatið og um hvaða áhrif þetta hefur á útblástur þá erum við samt að taka ákvarðanir á þingi um fjármögnun á aðgerðum án þess í rauninni að vita hvaða áhrif þær koma til með að hafa. Hvað þingið varðar finnst mér ósanngjarnt að segja bara: Hérna eru 30 aðgerðir, látið okkur fá fullt af pening.