149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:40]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Bara varðandi seinna atriðið sem hv. þingmaður nefndi: Ég tek alveg undir að það er margt sem við þurfum að reyna að gera betur í, sjá hvað það kostar og reyna að verðmeta þættina. Ég talaði um fulla fjármögnun á geðheilbrigðisáætlun. Geðheilbrigðisáætlun var samþykkt á síðasta þingi og þar var einmitt merkt inn hvað aðgerðirnar kostuðu. Þar getum við vissulega talað um að allt sé fullfjármagnað og það þyrftum við að gera varðandi eins margar áætlanir og við mögulega getum. Ég er ekki viss um að við getum endilega gert það við alla hluti en við getum nálgast það. Það er það sem við eigum að gera. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er hann sammála okkur í því sem höfum gagnrýnt þetta, þetta er eitt af því sem við erum alltaf að reyna að fara framar í og gera betur.

Ég tek undir að við þurfum að reyna að gera meira af því og krefja ráðuneytin um svör í þeirri vinnu enn frekar en verið hefur.

Varðandi barnabæturnar. Mér skilst að það sé óbreytt hjá þeim sem þingmaður nefndi þar sem þetta á fyrst og fremst við um þá sem eru tekjulægri. Að öðru leyti er grunnurinn óbreyttur. Ég fæ alla vega þær upplýsingar. En þetta er eitt af því sem við bara getum einmitt skoðað betur í vinnunni okkar sem er fram undan.