149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:42]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að staldra aðeins við barnabætur. Ég hef séð margar ræður frá hv. þingmanni þar sem hún, og flokkur hennar, hefur verið að kalla eftir auknum fjármunum til barnabóta. Nú er verið að auka lítillega í barnabætur og auðvitað fagnar maður hverri krónu sem fer í þetta mikilvæga velferðarúrræði sem barnabætur eru. Ég veit að hv. þingmaður er sammála mér hvað það varðar.

Hins vegar velti ég einu fyrir mér. Eins og staðan er í dag byrja barnabætur að skerðast langt undir lágmarkslaunum. Þegar manneskja er komin með 242 þús. kr. á mánuði byrja þær að skerðast. Þessu á að breyta. Við höfum lagt tillögur fram tvisvar á þingi, bara fyrir nokkrum mánuðum meira að segja, um að barnabætur ættu ekki að skerðast undir lágmarkslaunum. Nú er verið að taka það skref. Það er fagnaðarefni. En mig langar aðeins að fá mat eða skoðun hv. þingmanns: Hvað breyttist á þeim mánuðum? Af hverju felldi hv. þingmaður tillögu okkar fyrir nokkrum mánuðum um að barnabætur ættu ekki að skerðast undir lágmarkslaunum og er núna nokkrum mánuðum síðar tilbúin að standa fyrir slíkri breytingu?

Svo langar mig líka að spyrja. Í frumvarpinu er verið að herða skerðingarhlutföllin. Verið er að hækka skerðingarhlutfallið hjá fólki sem er með 460 þús. kr. á mánuði eða meira. Nú voru að koma tölur í dag um að miðgildislaun, týpísk laun, á Íslandi eru 618 þús. kr., þannig að við erum að sjá að fólk sem er talsvert undir meðallaunum eða miðgildislaunum lendir í skerðingum. Núna í boði Vinstri grænna er fólk að lenda í enn meiri skerðingum, því að skerðingarhlutföllin eru hert. Auðvitað notar hv. þingmaður eða ríkisstjórnin tækifæri til að klípa aðeins af barnafjölskyldum á sama tíma og sett er aðeins inn í það.

Mig langar að spyrja: Af hverju stendur hv. þingmaður fyrir auknu skerðingarhlutfalli hjá fólki sem er undir meðallaunum?