149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:45]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Varðandi hina pólitísku spurningu hvers vegna við felldum minnihlutatillögu fyrir örfáum mánuðum þá erum við núna að fjalla um nýtt fjárlagafrumvarp þar sem búið er að gera ráð fyrir þessum fjármunum til verksins. Það var ekki búið að gera í síðasta frumvarpi af okkar hálfu á þeim tíma. Eins og hv. þingmaður veit var Samfylkingin með tillögur að ákveðinni fjármögnun sem ekki allir voru sammála um o.s.frv. Það er þannig á hverjum tíma að við þurfum að vega og meta tillögur sem við erum að fást við. Eftir samtal, eftir að hafa farið í gegnum þann tölulega grunn sem við höfum hér undir erum við í ríkisstjórninni og sem stöndum að henni sammála um að möguleiki sé að gera þetta. Við erum afskaplega ánægð með það. Ég heyri og er ánægð með að hv. þingmaður skuli vera sammála því viðhorfi og að þetta sé eitthvað sem hann hefur, eðlilega, líka lagt til að við gerum. Þetta er auðvitað 16% hækkun. Þessi viðmiðun á fjárhæðarmörk skerðinganna er hluti af því. Ég er ánægð með það.

Varðandi tölur sem hafa birst í dag er það ekki eitthvað sem ég get tjáð mig um. Ég er búin að sitja í salnum frá því að umræða hófst þannig að ég hef ekki haft tök á því að skoða nýjar tölur sem hafa verið birtar. Ég vil ekki gangast við því að ég sé að ganga hart fram með slík skerðingarmörk, eins og hv. þingmaður nefndi áðan.

Hv. þingmaður kom inn á í ræðu áðan að hann væri svartsýnn, þetta væri ekki gott frumvarp. Það er eðli málsins samkvæmt hans stef. Ég er ekki sammála því. Ég tel að frumvarpið sé mjög gott. En eins og ég hef ævinlega sagt og lauk ræðu minni á áðan (Forseti hringir.) þarf alltaf að halda áfram að gera gott samfélag betra.