149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:47]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þessar nýju tölur um miðgildislaun á Íslandi í dag koma ekkert sérstaklega á óvart. Þetta hefur verið um 600 þús. kr. Það er bara sérkennilegt að hafa barnabætur sem skerðast og það sé verið að herða skerðingar hjá því fólki sem nær ekki meðallaunum. Mér finnst það sérstök pólitík. Það er ekki eins og við séum að setja mjög mikið í barnabætur. Um 1% af ríkistekjunum fer í barnabætur, það er nú allt og sumt. Mér finnst þetta vanrækt úrræði velferðarkerfisins. Sama með vaxtabæturnar. Þær áttu að fara í 4 milljarða árið 2018, en verða bara 3. Nú á að fara að hækka upp í 3,4. Þetta er ekki upp í nös á ketti, því miður. Við sjáum að helmingurinn er líka dottinn úr vaxtabótakerfinu. Það hefur sjaldan verið eins dýrt að vera ungur einstaklingur og vera á þessum húsnæðismarkaði. Það vita allir þingmenn. Þess vegna hefur ríkið skyldum að gegna. Það setur ekki neitt á hliðina þó að við setjum viðbótarmilljarða í barnabætur og vaxtabætur. Það vita það allir sem eru í þessum sal. Ég er alltaf að reyna að brýna kollega mína, ekki síst í Vinstri grænum, að ná þessu í gegn. Ég veit að það er stefnumál Vinstri grænna að bæta í barnabætur og vaxtabætur. Nú er tækifærið. Þið hafið forsætisráðherrann. Ég vil brýna ykkur til góðra verka.

Mig langar aðeins að koma inn á framhaldsskólana þar sem ég veit að hv. þingmaður hefur áhuga á menntamálum. Mér finnst sérkennilegt að hér sé beinlínis lækkun á milli ára. Við vitum auðvitað að það er búið að stytta framhaldsskólann, en það var búið að lofa því að framhaldsskólinn fengi að halda þeim fjármunum sem spöruðust vegna styttingarinnar. Það á ekki að vera neitt nýtt. Á sama tíma er líka verið að boða stórsókn í menntamálum, ekki síst á framhaldsskólastiginu. Ég sé hana ekki. Hvar er stórsóknin þegar við lækkum fjármuni milli ára til framhaldsskólastigsins?

Ég vil rifja það upp þegar forsvarsmenn framhaldsskólanna á Íslandi komu til fjárlaganefndar í fyrra, þá sögðu þeir að þeir væru komnir að þolmörkum. Þetta er ekki neitt sem myndi setja ríkiskassann á hliðina með því að mæta svona grunnþáttum (Forseti hringir.) í okkar velferðarkerfi, hvort sem það er bótakerfið eða menntakerfið.