149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er alveg sammála því að þetta setur ekkert á hliðina. Fullt af svona aðgerðum gætu hins vegar gert það, ef við vildum gera allt sem okkur langar til að gera, það er alveg klárt mál. Við erum líka í ríkisstjórnarsamstarfi þar sem við þurfum að semja um ákveðna hluti. Það myndum við líka þurfa að gera ef við værum í ríkisstjórnarsamstarfi með Samfylkingunni, það er alveg ljóst. Ég tel að við séum að ná niðurstöðu sem hefur mikið vinstra yfir sér og er afskaplega ánægð með það.

Varðandi menntamálin er kjörið tækifæri á morgun til að ræða þau nánar við menntamálaráðherra og fagráðherrana þar. Hæstv. ráðherra kom inn á það við síðustu fjárlög þar sem hún hélt því fram, og hefur verið ekki ein um það, að hvað varðar OECD-viðmiðið sem við höfum gjarnan viljað miða okkur við sé samsetningin ekki eins alls staðar og huga þurfi að því. Engu að síður stefnum við að því að vera á meðal bestu skóla í heimi og ég held að við eigum að gera það.

Útgjöld á hvern nemanda í framhaldsskóla aukast um 7% á milli ára. Það er alveg spurning hvort það dugi til, ég veit það ekki. Við fáum væntanlega umsagnir skólanna um það. Eins og ég sagði er eðli stofnana að óska eftir umframfjármagni. Framhaldsskólinn hefur svo sannarlega verið með allt of lítið fjármagn mörg undangengin ár, um það erum við sammála. Breytt námskrá og þriggja ára skóli og allt það hefur haft röskun í för með sér en breytingarnar eru að klárast og verða allir skólar að komast á réttan kjöl í því. Það verður áhugavert að sjá hvort breytingin á fjármagninu þarf að vera með öðrum hætti en verið hefur. Ég hef alltaf talað fyrir hönd skólanna og mun halda áfram að gera það í fjárlaganefnd og ég hlusta.