149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að staldra við eitt atriði í ræðu hv. þingmanns sem snýr að hagfelldum skilyrðum í ríkisbúskapnum, sterkri efnahagsstöðu. Það er þegar hv. þingmaður segir að það sé að mestu leyti tilkomið vegna fjölgunar á ferðamönnum, sem er út af fyrir sig rétt, að þetta sé nokkurs konar hvalreki og heppni nánast, svipað og þegar makríllinn syndir inn í landhelgina. Þarna verð ég að vera ósammála. Þótt vissulega sé það svo að við séum mjög háð eftirspurninni eftir að koma til landsins þá verka saman ótrúlega margir þættir. Við erum í fyrsta lagi á sama tíma og ferðaþjónustan nýtur aukinnar eftirspurnar með aðra þætti í hagkerfinu sem eru í lagi. Við höfum tekist á um í áratugi hvernig við ætlum að haga fiskveiðistjórnarkerfinu, það er í lagi. Það skilar verðmætum sem hjálpar til á eftirhrunsárunum. Sama gildir með orkuvinnslu og uppbyggingu iðnaðar. Það gerðist ekki bara einhvern veginn og það var ekki eins og makríll sem synti inn í landhelgina. Sá þáttur, sú stoð sem er í lagi og skilar gríðarlegum verðmætum í útflutningstekjum fyrir þjóðarbúið — þetta gerðist ekki einhvern veginn. Það eru ákvarðanir sem voru teknar, m.a. hér, sem eru þar að baki.

Þegar kemur að ferðaþjónustunni verð ég að nefna nokkra þætti. Í fyrsta lagi höfum við í áratugi verið í samfelldu markaðsátaki. Við fórum í sérstakt markaðsátak eftir Eyjafjallajökulsgosið, sem við vitum svo sem ekki nákvæmlega hverju skilaði, og höfum markvisst unnið að því að fá til landsins fleiri ferðamenn.

Ég verð sömuleiðis að segja varðandi gjaldmiðilinn okkar að það hafa sjálfstæða peningamálastefnu, gjaldmiðil sem gefur eftir í kreppu, gerði landið ódýrara og opnaði dyrnar fyrir ferðamenn, styrkti útflutningsgreinarnar. Það gerðist ekki af sjálfu sér. Það var ákvörðun flokkanna að vera með eigin gjaldmiðil og við erum að takast á um það hér hvort það sé gott eða ekki.

Svo verð ég að lokum að nefna uppbyggingu allra einstaklinganna, alls fólksins sem hefur haldið t.d. Icelandair úti í áratugi, fólksins sem hefur byggt hótelherbergin, opnað á bændagistingu úti um allt land og tækifæri, upplifun fyrir ferðamenn. Þetta gerðist ekki af sjálfu sér.