149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins blanda mér í umræðu um þennan punkt vegna þess að ég hef rekist á þessa fullyrðingu nokkrum sinnum að undanförnu þar sem menn segja: Við erum bara alltaf svo heppin. Við erum alltaf að fá ókeypis vinninga, Íslendingar. Mér finnst það alveg ótrúlega mikil einföldun á stöðunni. Þetta verkar allt saman. Staðan væri ekki svona góð bara vegna ferðaþjónustunnar. Það þarf að verka hvað með öðru í hagkerfinu. Hagkerfið er orðið fjölbreyttara og mun sterkara fyrir vikið. Mér finnst við þurfa að hafa í huga heildarsamhengi hlutanna.

Hins vegar er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að við sáum ekki fyrir þessa miklu fjölgun. Ég held að það sé öllum ljóst t.d. að þessi mikla útvíkkun á starfsemi Wow, sem kostar greinilega mikið fjármagn sem þeir eru að reyna að sækja sér núna, hefur haft mikið að segja. Það var engin stjórnvaldsákvörðun þar að baki. Hins vegar má segja að við höfum haft innviði t.d. í Keflavík og við höfum haft fyrirtæki eins og Isavia, opinber fyrirtæki, sem hafa haft getu og burði til þess að byggja upp flugstöðina í samræmi við aukna eftirspurn. Að því leytinu til höfum við verið reiðubúin.

Hvernig sem við horfum á þetta, sem einhvers konar tilviljun eða hvort við höfum einfaldlega skapað almennu ytri skilyrðin og smám saman verið að ýta undir Ísland sem ákjósanlegan ferðamannastað, þá er alla vega eitt alveg víst; hagkerfið eins og það er með sterkri ferðaþjónustu í landinu er miklu sterkara hagkerfi. Það er fjölbreyttara, það þolir betur áföll og það skapar meiri verðmæti. Landsframleiðsla á mann hefur aldrei verið meiri en er í dag. Það er ástæðan fyrir því að ég segi í dag að við höfum aldrei staðið sterkar.