149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástandið eins og það er núna í ferðamálum — vissulega voru dyrnar nægilega stórar og fínar til að geta opnað fyrir öllum ferðamönnum en við þurftum eiginlega að bjóða þeim inn á tómt stofugólfið. Þar var ekki borðstofuborð eða varla eldhús til að bjóða þeim upp á þær kræsingar sem hér væri að finna.

Það er vissulega upplifun og mjög svo góð upplifun fyrir suma að prófa náttúruna eins og hún lítur út, en það hefur líka valdið rosalegum átroðningi að vera ekki tilbúin þegar fólk veður í rauninni um á skónum, ekki endilega skítugum, að það sést á náttúrunni hjá okkur. Það sést á akstri utan vega, það sést á ýmsum náttúruperlum meðfram Suðurlandinu alveg að Austurlandi þegar fólk streymir að til að sjá gljúfrin og annað. Það er rosalegur átroðningur og það hefur gengið svo langt að hægt er að segja að sum svæði séu einfaldlega ónýt eftir þennan átroðning. Og það er hluti af því að við erum ekki með áætlanir, við erum ekki tilbúin til þess að taka við þessum ferðamönnum þó að dyrnar séu nægilega stórar og opnar af því að við bjuggumst ekki við svona mörgum. Ef við hefðum búist við svona mörgum hefðum við lagt á borð, þá værum við með stóla til að fólk gæti sest á þá og notið náttúrunnar án þess að skemma hana á sama tíma.