149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:52]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga fyrir fjárhagsárið 2019. Ég vil í upphafi víkja að síðasta þingi, 148. löggjafarþingi, sem var sérstakt fyrir ýmsar sakir og haldið við óvenjulegar aðstæður. Tími fyrir umfjöllun og afgreiðslu fjárlaga fyrir fjárhagsárið 2018 var knappur fyrir þingið og þá um leið fyrir hæstv. ríkisstjórn til að koma þeim stefnumálum að sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála. Ég vil meina að vel hafi til tekist á þeim skamma tíma að vísa veginn, getum við sagt, og stíga fyrstu skrefin í þeirri innviðasókn og uppbyggingu grunnkerfa samfélagsins sem boðuð er í stjórnarsáttmála. Á sama tíma er ekki vikið frá þeirri ábyrgu og skynsamlegu stefnu að halda áfram á þeirri braut að greiða niður skuldir, létta á vaxtabyrði og auka svigrúm til frekari uppbyggingar. Í kjölfar afgreiðslu fjárlaga var fjármálastefna samþykkt í mars síðastliðnum. Í júní á þessu ári samþykkti þingið ríkisfjármálaáætlun til næstu fimm ára, árin 2019–2023, þar sem er að finna nákvæma útfærslu á stefnumálum hæstv. ríkisstjórnar.

Þetta gerðist á mjög skömmum tíma allt saman en frumvarpið sem við ræðum, fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2019, hvílir á staðfastri stefnu og ríkisfjármálaáætlun. Það er mikilvægt og er það lengsta sem við höfum komist í fjárlagaferli laga um opinber fjármál. Það er í mínum huga, ef við skoðum frumvarpið, jákvæð birtingarmynd bættrar umgjarðar og framkvæmdar ríkisfjármálanna og dregur fram markmið laganna um opinber fjármál nú þegar við í þinginu náum að tengja umfjöllun um afgreiðslu stefnuáætlunar og markmið laga um aukinn aga, festu, stöðugleika, að þau náist og styrki jafnframt aðkomu Alþingis að stefnumótun og markmiðssetningu í ríkisfjármálunum.

Ég vil geta þess að hv. forsætisnefnd tók fyrir á fundi sínum í ágúst þá reynslu sem þegar er komin á framkvæmd laga um opinber fjármál og kallaði m.a. eftir minnisblaði hv. fjárlaganefndar um framvinduna frá samþykkt laganna 2015. Það er von mín að á dagskrá komist frekari umræða um þá stöðu og frekari umræða þegar við ræðum endurskoðaða ríkisfjármálaáætlun.

Í fjárlagafrumvarpinu er lagt upp með og haldið áfram á braut innviðasóknar, kröftugrar uppbyggingar grunnkerfa í heilbrigðismálum, samgöngumálum og menntamálum og útgjöld aukin um leið og haldið er í skynsemi og markmið um að viðhalda þeim mikla efnahagslega ávinningi sem náðst hefur á undanförnum misserum, ekki síst til að varðveita þá miklu kaupmáttaraukningu sem náðst hefur með skynsamlegri hagstjórn.

Þannig er lagt upp með jákvæða afkomu sem nemur 29 milljörðum og er í samræmi við stefnu um 1% af vergri landsframleiðslu. Þetta eru um 3,25% af heildarútgjaldaveltunni. Það er vissulega naumur afgangur og í ljósi útgjaldaþróunar og aukningar á liðnum árum verðum við að hafa í huga að hagvöxtur, langt hagvaxtarskeið, stöðugleikaframlög, hraðari niðurgreiðsla skulda og þar af leiðandi lækkun á vaxtabyrði skapar svigrúm og gerir okkur kleift að ráðast í slíkt nauðsynlegt átak í uppbyggingu innviða og auka að raungildi útgjöld til mikilvægra málasviða og málaflokka.

Staða ríkissjóðs hefur því styrkst með þeim hætti og viðnámsþróttur aukist. Hér er hátt atvinnustig, laun hafa hækkað mikið hjá öllum hópum þjóðfélagsins. Það er lág verðbólga í sögulegu samhengi og stöðugt verðlag í samfellt fjögur ár sem hefur aukið kaupmátt allra og að því leytinu bætt lífskjör verulega. Fjárlögin og frumvarpið sem við ræðum endurspegla þá stöðu en á sama tíma er ljóst að til þess að við sameiginlega, í gegnum okkar stóru samneyslukerfi, njótum þessa stöðuávinnings til framtíðar verðum við að gæta þess að greiða áfram niður skuldir og umfram allt að vernda og verja áunninn kaupmátt og gæta þess að áhrifin af ríkisfjármálunum í samhengi hagstjórnar raski ekki efnahagslegum stöðugleika. Meðal annars þess vegna er áhersla á að skila afgangi og greiða áfram niður skuldir.

Kjaramál, hvort heldur er á almennum eða opinberum vinnumarkaði, má og ber að skoða í víðu samhengi efnahagsmála en verða þannig séð ekki leyst í einu vetfangi í fjárlögum, með fjárheimildum, tekjuáætlunum og hagrænum forsendum til eins fjárhagsárs. Það eru þó víða merki í fjárlagafrumvarpinu um að verið sé að koma til móts við málefni vinnumarkaðar og treysta félagslegan stöðugleika.

Þar erum við að horfa á innlegg og stuðning við almenn lífskjör og jöfnuð. Lífskjör á Íslandi eru góð á flesta mælikvarða, jöfnuður óvíða meiri. Það er mikill kaupmáttur og hátt atvinnustig. Svo eru önnur atriði sem geta haft mikil áhrif á lífskjör, eins og til að mynda fasteignaverð, vextir og önnur lífsgæði og rými til tómstunda, álag í starfi o.s.frv. Þetta kemur mjög vel fram í ritgerð Gylfa Zöega sem unnin var að beiðni forsætisráðuneytisins um stöðu efnahagsmála í aðdraganda kjarasamninga og snýr að heildarsamhengi og þjóðhagslegu umhverfi.

Það er og viðurkennt að núverandi góðæri þarf að skila sér betur til lágtekju- og millitekjuhópa. Í frumvarpinu horfum við á samræmingu á efra skattþrepi og persónuafslætti við vísitölutengingu. Það er aðgerð sem skilar sér til lengri tíma þannig að ekki verði hliðrun eða misræmi á skattinum á milli tekjuhópa. Ýmislegt hefur þegar verið gert til að treysta félagslegan stöðugleika og lögð lóð á vogarskálar kjarasamninga. Þegar hafa greiðslur verið auknar í fæðingarorlof og atvinnuleysistryggingar og greiðslur úr Ábyrgðasjóði launa, sem ábyrgist m.a. vangoldin laun.

Því tengt er í frumvarpinu verið að hækka barnabætur og persónuafsláttinn umfram lögboðna hækkun og lækka tryggingagjald um 0,25%. Allt er það í þágu félagslegs stöðugleika og bættra lífskjara. Áfram er unnið að því að einfalda samspil tekjuöflunar og bótakerfa og 4 milljarðar settir til kerfisbreytinga og almannatrygginga til að bæta kjör öryrkja.

Heilbrigðismál eru fyrirferðarmikil í frumvarpinu með hærri framlögum til heilsugæslu, geðheilbrigðisþjónustu, reksturs hjúkrunarheimila og byggingar Landspítala, sem tekur mest af útgjaldaaukningunni. 500 milljónir fara í að draga úr kostnaði aldraðra og öryrkja og 400 milljónir aukalega til að minnka enn frekar greiðsluþátttöku sjúklinga.

Í frumvarpinu er lagt til að auka húsnæðisstuðning. Það kom fram í ríkisfjármálaáætlun sem ég minntist á áðan að gert er ráð fyrir að álögur lækki sem svarar til 1 prósentustigs í lægra þrepi tekjuskatts á tímabilinu og það gert í samspili tekjuskatts og bótakerfa og mun endanleg útfærsla ráðast af samráði ríkisstjórnar við aðila vinnumarkaðarins.

Umræðan um ríkisútgjöldin hefur verið svolítið of eða van. Segja má að á undanförnum árum, frá 2013, með raunaukningu útgjalda upp á 1,7%, hafi viðnám hafist og aukist að raungildi á ári hverju síðan til þessa frumvarps sem við fjöllum um með 5,6% raunaukningu á rammasettum útgjöldum. Uppsafnað er það um 40% raunaukning.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fór ágætlega yfir það að miðað við spár um rénandi hagvöxt er ekki við því að búast að hægt sé að viðhalda jafn miklum útgjaldavexti á næstu árum. Það er mikilvægt að líta til sjálfbærni ríkisfjármála og að við í þinginu og hv. fjárlaganefnd, nú þegar frumvarpið kemur til umfjöllunar í nefndinni, ræðum það í samhengi við framkvæmd fjárlaga og endurmat útgjalda sem brýnt er að fara í til framtíðar.