149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:08]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki fékk ég mikinn tíma núna til að ígrunda seinna andsvarið en ég geri mitt besta. Ég er sammála hv. þingmanni varðandi kostnaðarmatið. Ég veit að verið er að vinna í þessum þætti að styrkja og betrumbæta og það er — ég vék að því í ræðu minni, þessu mikilvægi í framtíðinni í samhengi við sjálfbærni fjárlaga og þann útgjaldavöxt sem við ræðum mikið, þetta endurmat á útgjöldum og að horfa á taktinn við verðmætasköpunina. Við erum að efla og styrkja í lögum um opinber fjármál þennan stefnumótunarramma og þá er á sama tíma algjörlega nauðsynlegt að setja fjárhæðir í þær aðgerðir sem við fáum inn í frumvarpið, ég tek undir orð hæstv. ráðherra hér, þegar við förum í umræðu um einstök málefnasvið og við ráðherra sem bera mikla ábyrgð í þessum lagaramma opinberra fjármála, að taka þessa umræðu við ráðherrana. Svo þarf nefndin auðvitað að fylgja þessu mjög fast eftir. Nú erum við að komast á þann stað að fá skýrslur frá hverjum ráðherra og eftirlitið með framkvæmd fjárlaga er á hendi hv. fjárlaganefndar. Þetta er í raun og veru mjög spennandi viðfangsefni fyrir nefndina að taka það fyrir ásamt auðvitað þessum þætti. Þetta er einn liður í því að við fáum tölur á aðgerðirnar.