149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:10]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Á þeim skamma tíma sem gefst er ekki hægt að gera annað en að drepa niður á stöku stað. Ég mun gera það hér, en ég vil í fyrsta lagi segja það að enda þótt ég geti ekki stutt að öllu leyti þá forgangsröðun sem frumvarpið ber með sér og áherslur á tekju- og gjaldahlið, þá get ég vel lýst yfir stuðningi við þá stefnu sem miðar að því að ríkissjóður verði sjálfbær. Sjálfbær í þeim skilningi að lækkað sé á skuldum ríkissjóðs og grynnkað á lífeyrisskuldbindingum gagnvart opinberum starfsmönnum. Góð staða ríkissjóðs í aðdraganda hrunsins gerði hina erfiðu aðstöðu okkar bærilegri en ella hefði orðið og er raunar erfitt að hugsa til enda þá stöðu sem uppi hefði verið ef skuldastaða ríkissjóðs hefði verið með allt öðrum og lakari hætti en þá var.

Herra forseti. Ég hef leyft mér að gera að umtalsefni hér á Alþingi og víðar verðtryggingu fjárskuldbindinga einkum eins og hún snýr að heimilum og atvinnufyrirtækjum landsmanna. Fyrirkomulag þessa kerfis er með þeim hætti að þar er liður inni, svokallaður húsnæðisliður og það hefur komið fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn frá þeim sem hér stendur að þessi húsnæðisliður hafi hækkað gríðarlega á undanförnum árum.

Heimili landsmanna og atvinnufyrirtæki eru ekki þeir einu aðilar hér í landinu sem hafa hagsmuni af því hvernig þessi vísitala er samansett. Ríkissjóður á líka mikilla hagsmuna að gæta. Í svari ráðherra kom fram að á liðnum fimm árum hefðu almennar verðbreytingar í landinu kallað yfir þá sem eru með íbúðalán 15 milljarða verðbætur, en húsnæðisliðurinn einn og sér 118 milljarða. Það sést náttúrlega af þessu hver kostnaður hefur verið af því fyrir ríkissjóð að búa við þetta kerfi. Nú er það svo eins og oft hefur verið fjallað hér um að þessari verðtryggingu er ætlað að bæta upp verðbólgu, þ.e. verðfall á peningum sem er efnahagslegt fyrirbæri. En hér er allt annað uppi. Hér er liður sem lýtur bara allt öðrum lögmálum og m.a. ræðst af því hvaða ákvarðanir eru teknar og hvaða stefna er mörkuð í Ráðhúsinu við Tjörnina varðandi lóðaframboð og annað slíkt. Þannig að hér erum við með fyrirkomulag sem hefur ekki bara leitt af sér feiknarlegar byrðar fyrir heimili og atvinnufyrirtæki heldur líka fyrir ríkissjóð. Ég leyfi mér að vona það að ráðherra hugi að þessu þegar hann veltir fyrir sér stefnumótun varðandi framtíð og fyrirkomulag verðtryggingarinnar.

Í annan stað, herra forseti, vil ég víkja að framsetningu frumvarpsins þar sem er stuðst við tvo reikningsskilastaðla. Þetta eru hinn svonefndi IPSAS-staðall um opinber fjármál og GFS-hagskýrslustaðallinn. Staðlar þessir, sem er fjallað um m.a. á bls. 122 í fjárlagafrumvarpi og áfram, hafa ólíkan tilgang, en með leyfi að segja þá verður að telja nokkuð umhendis, ekki síst fyrir lesendur sem ekki hafa tileinkað sér hin fínni blæbrigði reikningshalds- og endurskoðunarfræða, að kynna sér efni frumvarpsins sem er náttúrlega grundvallargagn um stefnu stjórnvalda, þegar farið er á milli þessara staðla eftir því sem fara gerir og tilefni gefst til í framsetningu og viðfangsefnum hverju sinni í frumvarpinu.

Ég geri mér grein fyrir því, herra forseti, að beiting þessara staðla er bundin í lög um opinber fjármál. En ég leyfi mér að velta þessu upp og hefði áhuga fyrir því að fá hér fram viðhorf annarra hv. þingmanna og ekki síst viðhorf hæstv. ráðherra til þessa, líka í ljósi gagnsæiskröfu samtímans.

Herra forseti. Ég tel óhjákvæmilegt að víkja stuttlega að varasjóðnum við þetta tækifæri. Fyrr á árinu voru kynnt áform um að nota hluta hans, nærfellt helming, til að nýta til framkvæmda í vegamálum. Alvarlegar athugasemdir voru gerðar af hálfu m.a. þess sem hér stendur við ýmis tækifæri, þar á meðal á fundi fjárlaganefndar þar sem ráðherra var mættur og í þingræðum enda þótt viðfangsefnið, aukið framlag til vegamála, væri í sjálfu sér brýnt og nauðsynlegt. En málið snerist um hvort uppfyllt væru skilyrði 24. gr. laga um opinber fjármál, þar á meðal krafan um að tilefni útgjalda væri ófyrirsjáanlegt.

Lagt var fram, með leyfi forseta, blað sem heitir minnispunktar, dags. 16. maí 2018, efni vegna fundar fjármála- og efnahagsráðherra með fjárlaganefnd í tengslum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um 4 milljarða aukin framlög til vegaframkvæmda á árinu 2018. Þar er rökstutt að fjárveitingin falli undir ákvæði um varasjóð. Áformin virtust því mjög í gadda slegin um það að varasjóðurinn yrði notaður í þessum tilgangi og að uppfyllt væru ákvæði laga um opinber fjármál um þessa notkun fjármagns. Síðan gerist það sem væri áhugavert að fá kannski nánari skýringar á en borist hafa hvað olli þeim sinnaskiptum að falla frá þessum áformum svo mjög sem þau virtust í gadda slegin á sínum tíma. Við erum að tala um miðjan maí. Ég leyfi mér að varpa þessu fram hér, virðulegi forseti.

Ég vil víkja næst að kolefnisgjaldi. Um það mál er fjallað á bls. 113 í fjárlagafrumvarpi. Þar kemur fram að fyrirhugað sé að hækka kolefnisgjald um 10% í ársbyrjun 2019 í því skyni að stuðla að samdrætti koltvísýringslosunar í andrúmslofti.

Nú er það svo, herra forseti, að ég hef leyft mér að kanna með fyrirspurnum og hef fengið svar frá umhverfis- og auðlindaráðherra sem er yfir þessum málaflokki þar sem fram kemur í svari á þskj. 1352 frá liðnu löggjafarþingi að „erfitt sé að meta nákvæmlega árangur af gjaldinu, mælt í minni losun en ella hefði verið hefði gjaldið ekki verið sett“, eins og segir, með leyfi forseta. Erfitt að meta nákvæmlega. Það var ekki spurt um nákvæmt mat, bara um hversu mikið. Hér er sem sagt sagt í raun og sanni, leyfi mér að túlka þetta svar, að menn hafi ekki hugmynd um það hversu mikið kolefnisgjaldið hafi dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi frá því gjaldið var ákvarðað.

Þegar spurt er um hversu mikið kolefnisgjaldið hafi dregið úr notkun ökutækja árlega frá því gjaldið var lagt á þá er sama uppi, sagt, með leyfi forseta: „Útilokað er að nefna nákvæmar tölur í þeim efnum …“

Aftur, það var ekki spurt um nákvæma tölu, þetta var almenn spurning. Menn hafa sem sagt ekki hugmynd um þetta. Hér er verið að framfylgja stjórnarstefnu sem menn hafa ekki hugmynd um hvaða áhrif hefur.

Herra forseti. Það kemur fram að tekjur ríkissjóðs munu aukast um 550 millj. kr. og að áhrif á vísitölu neysluverðs eru metin 0,05% til hækkunar. Ég vona að ég fái tækifæri til að fjalla nánar um þessar tölur því að þær hafa mikla þýðingu í okkar samfélagi.