149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins varðandi reikningsskilastaðlana. Það er alveg fullgild ábending að þegar framsetning er dálítið sitt á hvað á þessum GFS- eða IPSAS-staðli getur þar munað talsvert miklu. Við höfum um langt árabil, í samtölum við bæði matsfyrirtæki og jafnvel aðila eins og OECD og fleiri slíkar alþjóðlegar stofnanir, fengið gagnrýni fyrir framsetningu sem er ávallt á GFS-staðli eða þar sem hagræn áhrif opinberra fjármála eru ekki vel greinanleg.

Til þess að gera íslenskar opinberar fjármálatölur betur samanburðarhæfar en líka að sjálfsögðu, og kannski fyrst og fremst, til þess að geta horft á hagræn áhrif opinberra fjármála á grundvelli þessarar framsetningar ákváðum við að gera þetta við innleiðingu laganna um opinber fjármál. Ég held að við getum sagt alveg eins og er í dag að við gerðum okkur ekki alveg fyllilega grein fyrir því hversu gríðarlega vinnu þetta kallaði á í stjórnkerfinu, sérstaklega í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og þeim stofnunum sem við höfum þurft að treysta á til þess að geta gert þetta. Það fer að líða að því, og kannski er sá tími kominn, að við tökum umræðu um það hver ávinningurinn af því hefur verið.

Varðandi vegamálin eru áformin alveg óbreytt. Það verður hins vegar þannig að eftir því sem þessi útgjöld falla til, eftir því sem framkvæmdirnar raungerast munu þær geta gengið á sjóðinn. (Forseti hringir.)

Ég hef víst ekki tíma til að fara lengra.