149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:30]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir prýðisræðu. Mig langar í fyrra andsvari að koma inn á þann hluta í ræðu hv. þingmanns sem snýr að húsnæðislið í vísitölu. Hv. þingmaður hefur látið sig almennt mikið varða vexti og lánakjör, ekki síst verðtryggingu og hag þeirra sem skulda og möguleika til að fjármagna til að mynda húsnæði. Í nýlegri skýrslu um endurskoðun peningastefnu kemur fram að ráðlegt sé að endurskoða í það minnsta útreikninga á húsnæðisliðnum. Við samþykktum á Alþingi þingsályktunartillögu okkar Framsóknarmanna um að fara í slíka vinnu og meta í efnahagslegu samhengi áhrif þess. Þá hefur komið út ágætisritgerð Gylfa Zoëga í tengslum við kjarasamninga þar sem hann segir og ég vísa til, með leyfi forseta, að mikilvægt sé að útreikningur húsnæðisliðar vísitölu neysluverðs sé skiljanlegur þegar hann er notaður við verðtryggingu lána og almennt álitinn vera sanngjarn. Málamiðlun getur fólgist í því að búa til fasteignaverðsvísitölu þar sem hækkun á markaðsverði húsnæðis í einum mánuði verður einungis til þess að hækka verð á því húsnæði sem gengur kaupum og sölum í þeim mánuði en breytir ekki verðmati á öðru húsnæði. Sveiflur húsnæðisliðarins yrðu þá minni.

Er þetta eitthvað sem hv. þingmaður gæti séð fyrir þegar hæstv. forsætisráðherra kemur með frumvarp um endurskoðun peningastefnu og framkvæmd hennar?